Hætt verði við hækkun símans

Greinar

Enn eitt málið bættist við langa afbrotaskrá Pósts & síma fyrir helgina, þegar Samkeppnisráð úrskurðaði, að farsímatilboð fyrirtækisins til félagsmanna Félags íslenzkra bifreiðaeigenda fæli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins á farsímamarkaði.

Póstur & sími er góðkunningi Samkeppnisstofnunar á sama hátt og raðglæpamenn eru kallaðir góðkunningjar lögreglunnar. Á fáum árum hefur hlaðizt upp fjölbreyttur afbrotaferill fyrirtækisins, þannig að Samkeppnisstofnun hefur hvað eftir annað gripið í taumana.

Fyrirtækið hefur á þessu árabili misnotað aðstöðu sína á fjölbreyttan hátt; í fjarskiptabúnaði, við innritun blaða og tímarita, í fjárhagslegu samkrulli rekstrarþátta, við notkun öryggisbúnaðar á símstöðvum, við póstdreifingu, í internetþjónustu og í læsingu gagnagrunns.

Ellefu sinnum hefur fyrirtækið verið kært fyrir Samkeppnisstofnun. Aldrei hefur verið úrskurðað því í hag. Níu sinnum hefur fallið úrskurður gegn fyrirtækinu. Breiðbandskæran er enn fyrir Samkeppnisráði og gjaldskrárhækkunin illræmda er alveg nýtt mál.

Stjórn Pósts & síma fundaði um stöðuna í lok síðustu viku og taldi sig finna, hvað væri að. Fyrirtækið ætti við ímyndarvanda að stríða. Laga þyrfti ímyndina, en ekkert var minnst á innihaldið. Þannig hefur fyrirtækið ekkert lært og engu gleymt á afbrotaferli sínum.

Ekki er hægt að reikna með, að fyrirtækið lagist neitt á næstunni. Þeir, sem ekkert hafa lært og engu hafa gleymt, hafa fengið traustsyfirlýsingu ráðherra og beiðni um að halda áfram störfum, svo að þeir geti fundið út, hvernig megi breyta ímynd með óbreyttu innihaldi.

Ríkisvaldið hefur klúðrað allri einkavæðingu sinni eins og hún leggur sig. Ekkert dæmi er til um, að einkavæðing ríkisstofnana hafi verið til góðs. En allt bendir til, að einkavæðing Pósts & síma verði hrikalegasta dæmið á öllum einkavæðingarferli ríkisins.

Stundum hefur ríkið einkavinavætt í stað þess að einkavæða. Það hefur látið gæludýr stjórnmálanna hafa ríkisfyrirtæki, þrátt fyrir hærri tilboð annarra. Oftast hefur ríkið þó einkavætt einokunina, þannig að meðferð hennar hefur orðið gráðugri en hún var hjá ríkinu.

Póstur & sími er dæmi um síðari aðferðina. Fyrsta verkið eftir einkavæðingu var að hækka laun forstjóranna og halda þeim leyndum. Síðan hefur öll rekstrarsaga fyrirtækisins falizt í tilraunum til að misnota varanlega og tímabundna einokunaraðstöðu.

Póstur & sími hefur fengið nokkurn veginn gefins ljósleiðara vegna viðskipta varnarliðsins og þarf því ekki að borga hann niður. Ljósleiðarinn gerir fyrirtækinu kleift að hafa símtöl á innanbæjarverði um allt land. Ástæðulaust var því að hækka innanbæjartaxta á móti.

Í Bandaríkjunum taka einkafyrirtæki í símaþjónustu ekki skrefagjald af fólki. Litið er svo á, að skrefakostnaður símkerfa nútímans sé nánast enginn, þegar búið er að greiða niður stofnkostnað. Hér á landi ætlar Póstur & sími hins vegar að lifa á skrefagjöldum.

Tómt mál er að tala um, að fyrirtækið eigi að skila ríkinu svo og svo miklum arði. Það hefur enga tilraun gert til að hagræða í rekstri. Það sér enga leið til arðsemi aðra en þá að hækka á viðskiptavinunum, þótt reynsla annarra sé, að meiri arður fáist af hagræðingu.

Ekki er nóg að slá af skrefahækkunum í kjölfar kastljóssins á innviði Pósts & síma. Sanngjarnt er, að skrefagjöld hækki alls ekki. Annað væri ósigur notenda.

Jónas Kristjánsson

DV