Hættuleg skilaboð

Greinar

Lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefur sent þau hættulegu skilaboð til erlendra fíkniefnasmyglara, að óhætt sé að flytja slík efni til Íslands, því að ekkert sé gert í málinu, þótt upp komist. Um áramótin lét embættið lausa ítalska konu, sem staðin hafði verið að verki.

Konan flutti nærri hálft kíló af hassi landsins á leið sinni frá Indlandi um Amsterdam til Íslands. Starfsmenn tollgæzlunnar á Keflavíkurvelli gripu konuna, sem var úrskurðuð í rúmlega viku gæzluvarðhald. Við yfirheyrslur sagðist hún hafa ætlað að nota allt hassið sjálf.

Erfitt er að sjá fyrir sér slíka stærðargráðu í einkaneyzlu af hálfu ferðamanns. Samt var konunni sleppt úr haldi hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík án dóms, án frávísunar og án kyrrsetningar. Hún var einfaldlega látin sleppa og tók fyrsta flug til Amsterdam.

Konan var ekki afhent ítölskum yfirvöldum, svo að marklítið er að segja, að mál hennar verði sent til Ítalíu til refsiákvörðunar. Það er einsdæmi, að glæpamönnum, sem staðnir hafa verið að verki í einu landi, sé sjálfum falið að skila sér til yfirvalda í allt öðru landi.

Þótt málið sé upplýst, er ekki vitað, að málsskjöl séu komin frá lögreglustjóranum til ríkissaksóknara. Virðist svo sem það eigi að gerast eftir dúk og disk og að síðan eigi að senda niðurstöðuna í pósti til yfirvalda á Ítalíu, sem þurfa þá að byrja á að reyna að finna konuna.

Erfitt er að sjá fyrir sér, að yfirvöld á Ítalíu muni leggja mikla áherzlu á að reyna að hafa hendur í hári konu, sem smyglaði fíkniefnum milli Amsterdam og Íslands og sem vafalaust verður ekki tagltæk á Ítalíu fyrr en mál þetta er fyrir löngu gleymt og grafið.

Ríkisvaldið á Íslandi hefur ekkert betra við peninga sína að gera en að nota þá til að fylgja stranglega eftir gildandi lögum og reglum um fíkniefnasmygl. Afgreiðsla lögreglustjóraembættisins í Reykjavík byggist því annað hvort á greindarskorti eða á hagsmunaárekstri.

Dómsmálaráðuneytinu ber nú að rannsaka meðferð lögreglustjóraembættisins á málinu. Mikilvægt er að finna, hvers eðlis mistökin eru, svo að unnt sé að koma í veg fyrir endurtekningu. Og mikilvægt er að láta embættið skilja, að svona getur það ekki hagað sér.

Mikilvægast af öllu er þó, að dómsmálaráðuneytið eyði á tvímælalausan hátt þeim misskilningi, sem lögreglustjóraembættið hefur stofnað til, að erlendum fíkniefnasmyglurum sé óhætt að smygla fíkniefnum til Íslands. Brýnt er að eyða þeim misskilningi strax.

Slík aðgerð ráðuneytisins mundi líka eyða þeirri tilfinningu tollvarða á Keflavíkurvelli, að tilgangslaust sé að leita þar að fíkniefnum, af því að ekkert sé gert með niðurstöðuna. Nauðsynlegt er þvert á móti að efla varnir, sem hafa hingað til verið allt of litlar þar.

Athygli hefur vakið, hversu lítið hefur verið tekið af fíkniefnum á Keflavíkurvelli undanfarin misseri. Það stafar ekki af litlum innflutningi, því að nóg er til af eitrinu í þjóðfélaginu, heldur af of litlum áherzlum á varnir í flugstöðinni. Nýja málið bætir sízt úr þeirri skák.

Bæta þarf leitartækjakostinn á Keflavíkurvelli, nota leitarhunda í auknum mæli og auka þjálfun starfsliðs, um leið og fylgt verði í kerfinu vel eftir þeim árangri, sem þar næst. Við megum til með að senda skýr og hörð skilaboð til glæpahringja fíkniefnaheimsins.

Fíkniefnaneyzla er mikið og vaxandi vandamál hér á landi, enda þótt við búum á eylandi, sem gerir landamæravörzlu auðveldari hér en hún er annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV