Aðalhættan við fyrirhugað staðgreiðslukerfi skatta er, að breytingin verður sennilega notuð til að hækka álögur á almenning. Það verður gert á sama hátt og til stóð í hinum andvana fædda virðisaukaskatti með því að áætla álagningarprósentuna of háa.
Fjármálaráðherra hugðist fyrr í vetur ná rúmlega tveimur milljörðum aukalega í ríkissjóð með því að nota sömu prósentu í virðisaukaskattinum og gildir í söluskattinum, þótt ráðgert væri að láta virðisaukaskattinn ná til mun fleiri tegunda vöru og þjónustu.
Þetta komst ráðherrann ekki upp með og mun því reyna aftur, í þetta sinn með staðgreiðslukerfinu, sem hann vill gera að lögum á ofanverðum vetrinum. Hann mun leggja fram frumvarp með nokkurra prósenta hærri álagningu en þarf til að samsvara núverandi kerfi.
Fyrir tæpum áratug var áætlað, að álagningarprósentan í staðgreiðslukerfi þyrfti að vera 25% til að ná sömu tekjum og í þágildandi kerfi. Ef bætt er við 6% útsvari, ætti heildarálagningin á tekjur manna að ná 31%. En í kerfinu er nú talað um 3540%.
Í þá daga var verðbólgan meiri en nú, svo að munurinn kann að vera nokkru minni núna. Á móti kemur, að álagningarprósentan hefur lækkað á þessum tíma. Altjend er ekki fráleitt að ætla, að fjármálaráðuneytið hyggist ná inn 49% meiri skatti með staðgreiðslukerfi.
Þar sem fjármálaráðherrann kemur frá flokki, sem þykist vilja lækka skatta og hefur raunar lofað að afnema tekjuskattinn af venjulegum tekjum, er þeim mun brýnna fyrir hann og kerfið að ná peningunum inn með öðrum hætti, það er með breytingum á sjálfu kerfinu.
Markmið virðisaukaskattsins var ekki að lækna skattakerfið, heldur að ná inn meira fé. Hið sama mark mið hefur staðgreiðslukerfið núna. Það á óvart að hækka skattana, svo að pólitíkusar geti áfram slegið gamalkunnar keilur á baráttu fyrir lækkun skatta.
Annars er staðgreiðslukerfið að flestu leyti gott, ef tekst að koma í veg fyrir, að það hækki skattana. Það gerir fólki kleift að fara í nám á miðjum aldri eða minnka við sig vinnu af öðrum ástæðum. Og það gefur fólki raunhæfari mynd af ráðstöfunartekjum sínum.
Vandamál óeðlilega hárra tekna á skattlausa árinu má leysa með dönsku aðferðinni, það er með því að leggja á því ári skatt á þær tekjur, sem eru meira en 20% umfram tekjur síðasta árs að viðbættri verðbólgu milli ára. Þar með er svindli haldið í hófi.
Ýmsir tæknilegir erfiðleikar fylgja þó hinu fyrir hugaða kerfi. Til dæmis verður erfitt að afnema ýmsan hefðbundinn frádrátt. Á til dæmis að telja ráðuneytisstjóra viðskipta það til tekna eða fríðinda að þurfa að kúldrast vikum saman í Moskvu fyrir þjóð sína?
Ennfremur verður erfitt að láta hreint staðgreiðslukerfi ná til annarra en launafólks, sem hefur lítt breytilegar tekjur. Skattar þeirra, sem hafa eigna- og vaxtatekjur eða stunda sjálfstæðan atvinnurekstur hljóta áfram að reiknast meira eða minna eftir á.
Í sjálfu sér er æskilegt að losna við hina ýmsu tekjuskatta og koma í staðinn á flötum skatti með fastri prósentu fyrir alla, svo og föstum frádrætti, sem gerir lágmarkstekjufólk skattlaust. Aðeins tvö atriði mæla gegn slíku, en þau eru því miður bæði veigamikil.
Í fyrsta lagi er tímahrak, því að skammt er til þingloka og frumvarpið ekki enn komið fram. Í öðru lagi mun skattagræðgi kerfisins spilla vinsældum málsins.
Jónas Kristjánsson
DV