Hættulegt starf

Greinar

Farzad Bazoft var duglegur blaðamaður frá brezka vikublaðinu Observer. Hann var hengdur á fimmtudaginn í Írak. Honum var fyrst gefið að sök að hafa njósnað fyrir Bretland og síðan sakaður um að hafa njósnað fyrir Ísrael. Réttarhöldin voru írakskur skrípaleikur.

Bazoft var einn af hundruðum atvinnumanna, sem sjá um, að Vesturlandabúar fái sæmilega áreiðanlegar fréttir úr öðrum heimshlutum, þar sem yfirvöld reyna að halda öllu lokuðu, svo að stjórnarglæpir komi síður í ljós. Þetta er hættulegt starf, svo sem dæmin sanna.

Írak er nálægt botni ríkja heims. Mannréttindasam tökin Amnesty hafa upplýst, að þar í landi eru fimm mánaða gömul börn tekin til fanga, pyntuð og drepin til að fá foreldra til að játa eða til að knýja þá úr felum. Smástúlkum er nauðgað og skólabörn skotin á torgum.

Stjórnin í Írak hefur beitt eiturgasi gegn þorpum Kúrda, sem eru minnihlutahópur í landinu. Þessi aðferð er svo hræðileg, að ekki einu sinni nazistar þorðu að beita henni í síðari heimsstyrjöldinni. Enda er Saddam Hussein forseti eitt mesta óargadýr heimsins núna.

Ástandið í Írak hefur lengi verið verra en ástandið í Íran, svo sem vel kom í ljós í styrjöld þessara ríkja. Satt að segja er furðulegt, að nokkurt vestrænt ríki skuli hafa stjórnmálasamband við Írak og leyfa sendimönnum sínum að sitja til borðs með fulltrúm Saddam Hussein.

Blaðamenn fara til landa á borð við Írak til að segja Vesturlandabúum fréttir af því, sem þar er að gerast. Farzad Bazoft var handtekinn á bannsvæði við verksmiðju, sem framleiðir eiturgas. Samanlögð vinna margra blaðamanna hefur upplýst svívirðuna í Írak.

Víðar um heim er hættulegt að vera blaðamaður. Í mörgum ríkjum íslamstrúar eru stjórnvöld afar grimm. Einna verst er þó ástandið í kaþólsku Ameríku. Þar láta árlega margir blaðamenn lífið vegna frétta sinna um stjórnmál, spillingu, hernað og eiturlyf.

Í Kólumbíu einni hafa 40 blaðamenn verið myrtir á aðeins tveimur árum, flestir þeirra í höfuðborg eiturlyfjanna, Medellín. Í flestum tilvikum næst ekki í morðingjana, jafnvel þótt ríkisstjórn Virgilio Barco segist vera að reyna að ráða niðurlögum eiturlyfjabófanna.

Ástandið er líka mjög slæmt í Perú. Þar komu grímuklæddir bófar úr stjórnarhernum á heimili Juvenal Farfán Anaya og skutu hann og alla fjölskyldu hans til bana. Í Mexíkó láta stjórnvöld oft drepa blaðamenn, sem hafa skrifað um spillingu og eitursölu stjórnvalda.

Herinn í El Salvador hefur lengi haft blaðamenn á heilanum og lét í fyrra myrða nokkra. Ástandið hefur versnað síðan kristilegir demókratar náðu völdum í forsetakosningum í fyrra. Geðveikur morðingi að nafni d’Aubuisson ræður flestu í her og stjórn landsins.

Blaðamenn, sem reyna að segja frá hlutum, sem stjórnvöld vilja ekki, að fréttist, eru ofsóttir í um það bil 80 ríkjum jarðar, samkvæmt nýjustu skránni frá Alþjóðastofnun ritstjóra, IPI. Ástandið fer víðast hvar versnandi, nema í Austur-Evrópu, sem er á frelsisleið.

Þrátt fyrir ofsóknirnar hefur blaðamönnum víða tekizt að draga upp mynd af hinum hræðilegu leyndarmálum stjórnvalda. Óttinn við þessa mynd veldur því, að stjórnvöld í þriðja heiminum þora ekki að fara eins illa með almenning og þau mundu annars hiklaust gera.

Farzad Bazoft er einn hinna hugrökku manna, sem hafa látið lífið, svo að blaðalesendur geti gert sér grein fyrir, hvað er að gerast í heiminum umhverfis þá.

Jónas Kristjánsson

DV