Eitthvað meira en lítið er að á flugvellinum í Reykjavík, þegar afturkalla þarf á síðustu stundu lendingarleyfi, sem flugvél hefur þegar fengið. Eitthvað meira en lítið er að á flugvellinum í Reykjavík, þegar önnur flugvél er fyrir á flugbrautinni, sem á að nota.
Það breytir engu, þótt flugmálayfirvöld segi, að slíkt komi stundum fyrir, jafnvel í útlöndum. Þau sögðu það líka fyrir fjórtán árum, þegar erlendir fjölmiðlar sögðu að gefnu tilefni frá árekstrahættu flugvéla við Reykjavíkurflugvöll. Þetta er bara sinnulítið yfirklór.
Heilbrigð dómgreind segir okkur, að slysahætta við Reykjavíkurflugvöll aukist, þegar flugbrautir eru lokaðar vegna endurbóta. Þá er ekki hægt að nota hagstæðustu vindátt og þá er minna svigrúm fyrir flugvélar, sem verið er að færa til á flugvellinum.
Ekki er víst, að flugslysanefnd finni beint samband milli almennra eða tímabundinna aðstæðna á flugvellinum og ákveðins flugslyss. En óbeina sambandið er öllum sýnilegt. Flugvöllurinn er öryggisvandamál og enn meira vandamál á viðgerðartímanum.
Áratugum saman hefur verið bent á, að það gangi ekki til lengdar, að innanlandsflugið sé rekið frá borgarmiðju Reykjavíkur. Hvenær verða flugslys ekki í Skerjafirði, heldur í miðborginni? Sinnulítil flugmálayfirvöld geta ekki staðið undir þeirri ábyrgð.
Í stað þess að plástra í holurnar á flugbrautum til bráðabirgða eru samgönguráðuneytið og flugmálastjórn nú að verja mánuðum og hálfum öðrum milljarði króna til að gera flugvöllinn varanlegan og það meira eða minna í óþökk borgaryfirvalda.
Þessi hálfi annar milljarður verður síðan notaður til að rökstyðja, að svo mikið sé búið að leggja í Reykjavíkurflugvöll, að óhagkvæmt sé að flytja innanlandsflugið annað. Þessi sami hálfi annar milljarður hefði dugað til að breikka veginn suður á Keflavíkurflugvöll.
Er það virði öryggis farþega og borgarbúa að samgöngur í lofti innanlands séu hálfum tíma sneggri frá Reykjavík en Keflavík? Er áætlunarflugi ekki hvort sem er lokið eða að ljúka til annarra staða en Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða og Vestmannaeyja?
Eina góða röksemdin fyrir framhaldslífi Reykjavíkurvallar er, að hann kemur í veg fyrir framkvæmd hugmynda félagsins Betri byggðar um þétta byggð í Vatnsmýrinni í stað eðlilegrar þróunar perlufestarbyggðar höfuðborgarsvæðis frá Reykjanesbæ að Borgarnesi.
Þótt flugvöllurinn hafi þann kost að taka pláss, sem annars yrði hugsanlega notað til skaðlegra ráðagerða í skipulagsmálum borgarinnar, er hætt við, að flugslysið í Skerjafirði geti sett strik í þá röksemdafærslu. Það er ekki bæði hægt að éta grautinn og eiga hann.
Er ekki skárra að sæta undarlegu og skammsýnu borgarskipulagi embættismanna Reykjavíkur heldur en ótraustu og sinnulitlu öryggi flugmálstjórnar og samgönguráðuneytisins? Af tvennu illu er verra að setja traust sitt á þá, sem bera ábyrgð á flugvellinum.
Flugslys á Íslandi hafa flest orðið vegna veðurskilyrða og landslags. Fátt er um slys við lendingar og flugtök, nema í Reykjavík. Tilviljun kann að ráða því, að eitt slíkt slys hefur einmitt orðið, þegar völlurinn er í lamasessi vegna óskynsamlegra endurbóta.
Hvort sem samband flugslyss og viðgerða er beint eða óbeint, þá hefur bætzt við þungvæg röksemd fyrir því, að innanlandsflugið verði flutt úr borgarmiðju.
Jónas Kristjánsson
DV