Hættunni var leynt

Greinar

Komið hefur í ljós, að valdir aðilar, einkum sveitarstjórnarmenn, hafa í heilan áratug vitað um raunverulega snjóflóðahættu á Íslandi, en ekkert farið eftir þeirri vitneskju og reynt að sporna gegn því, að hún breiddist út. Hingað til hafa hættumörk því verið sett af handahófi.

Vitneskjan um, að hættan væri meiri en sveitarstjórnarmenn vildu vera láta, kom í ljós á tvennan hátt. Í fyrsta lagi vann Hafliði Jónsson veðurfræðingur að snjóflóðamati árin 1980-1984. Og í öðru lagi var fengin skýrsla um málið frá Norges Geotekniske Institutt árið 1985.

Hafliði var til dæmis búinn á sínum tíma að teikna upp snjóflóð í Súðavík, sem var að umfangi eins og það sem rann fyrr á þessu ári. Og norska jarðtæknistofnunin var á sínum tíma búin að teikna upp snjóflóð á Flateyri, sem var að nokkru eins og það, sem rann nú í vetur.

Í skýrslu Norðmanna kemur skýrt fram, að það vekur undrun þeirra, að byggt hafi verið á augljósum hættusvæðum án þess að reyna að meta áhættuna. Skýrslu þeirra var stungið undir stól og haldið áfram að byggja villt og galið upp í fjallshlíðar víða um land.

Það er rangt, sem reynt hefur verið að halda fram að undanförnu, að þekking manna á snjóflóðahættu sé of lítil. Þvert á móti hafa vísindamenn raunar spáð þeim snjóflóðum, sem orðið hafa. Það hefur bara verið sveitarpólitísk samstaða um að þegja þekkinguna í hel.

Viðbrögð bæjarstjórnar Ísafjarðar við upplýsingum um snjóflóðið á Engjavegi eru dæmigerð fyrir þessi ábyrgðarlausu viðhorf. Bæjarstjórinn sagði upp áskrift að héraðsfréttablaðinu, sem birti fréttir af flóðinu, og heimtaði raunar lögreglurannsókn á heimild blaðsins.

Héraðsblaðið birti mynd af snjóflóði, sem féll ofan við sorpeyðingarstöðina í vor. Reynt var að fá það til að hætta við birtinguna til þess að valda ekki óróa í bæjarfélaginu. Einmitt á þessum stað voru mannslíf í hættu um daginn, þegar snjóflóð rústaði sorpeyðingarstöðina.

Ástandið er því í stórum dráttum þannig, að sveitarstjórnir halda leyndum upplýsingum, sem auka öryggi almennings, og fara alls ekki að tíu ára gömlum ráðleggingum vísindamanna, en eyða orku sinni í að amast við því, að sagt sé frá staðreyndum, sem varða öryggi fólks.

Núna hefur harkalega komið í ljós, að svokallað hættumat í sveitarfélögum byggist ekki á vísindalegum niðurstöðum, sem hafa legið í skúffum valinna aðila í heilan áratug, heldur á sveitarpólitísku mati á því, hvort hættumatið geti rýrt verðgildi fasteigna á svæðinu.

Svo forstokkaðir eru valdamenn, að tvö mannskæð snjóflóð á þessu ári urðu ekki til þess, að málsaðilar vitkuðust og drægju gamlar skýrslu upp úr skúffunum. Það var DV, sem gróf upp hina tíu ára gömlu norsku skýrslu og birti rækilega frásögn af henni í gær.

Um leið hefur komið í ljós, að ófært er að láta sveitarstjórnir um að meta hættuna. Setja þarf lög um, hvernig hættumat sé unnið, án þess að óviðeigandi hagsmunir hafi áhrif á það. Og til bráðabirgða er hægt að setja reglugerð um, að norska skýrslan gildi frá deginum í dag.

Meginatriði málsins er, að tilgangslaust er að vinna á móti náttúrunni með því að láta sveitarpólitík ryðja náttúruvísindum til hliðar, setja upp gersamlega gagnslausar snjóflóðavarnir og halda áfram að byggja undir fjallshlíðum. Menn verða í staðinn að laga sig að náttúruöflunum.

Við þurfum að vera sveigjanleg, byrja að viðurkenna vísindin og byrja að virða náttúruöflin, í stað þess að haga okkur eins og við séum herrar jarðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV