Hættur við að hætta.

Greinar

Svokallað Þorsteinsmál ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins hefur tekið enn eina kúvendingu um áramótin. Á ný er talið hugsanlegt, að þingflokkur sjálfstæðismanna kjósi Þorstein Pálsson flokksformann til stjórnarsetu í stað einhvers núverandi ráðherra.

Aðeins mánuður er síðan Þorsteinn gaf í blaðaviðtali þessa yfirlýsingu: .,Ég fer ekki í þessa ríkisstjórn og mun ekki gera neinar tillögur um breytingar á henni.” Ennfremur kvað hann löngu vera orðið tímabært, að menn hættu að velta vöngum yfir þessu.

Þorsteinn gaf desemberyfirlýsinguna, þegar komið hafði í ljós, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru hver fyrir sig ófúsir að standa upp fyrir honum. Til dæmis var Matthías Bjarnason, sem áður hafði boðið Þorsteini sinn stól, orðinn afhuga hinu fyrra boði.

Fram að þessum tíma virtust tilraunir til að koma Þorsteini í ríkisstjórnina hafa byggzt á þeim misskilningi, að formaður Sjálfstæðisflokksins gæti sjálfur ákveðið slíkt. En það er ekki landsfundur flokksins, sem velur ráðherra hans, heldur þingflokkurinn.

Landsfundur og þingflokkur eru ólíkar stofnanir. Landsfundur samþykkir til dæmis margvísleg hugsjónamál, sem þingflokkurinn hefur lítinn áhuga á að framkvæma. Til dæmis stendur þingflokkurinn hugmyndafræðilega mun nær Framsóknarflokknum en landsfundurinn gerir.

Þegar Þorsteinn og stuðningsmenn hans í máli þessu áttuðu sig á staðreyndunum, lagði hann niður þann hinn fyrri stuðning við ríkisstjórnina, sem hafði fært honum óformlegan titil blaðafulltrúa hennar. Hann hætti að tala fyrir hönd stjórnarsamstarfsins.

Eftir að hafa um haustið talað á Alþingi í öllum stórmálum ríkisstjórnarinnar, þagnaði hann skyndilega um mánaðamótin nóvember-desember. Hann varði til dæmis ekki gengislækkunina eða fjárlögin og sagði þetta ekki vera sín mál, heldur ríkisstjórnarinnar.

En Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sá fljótlega, að við svo búið mátti ekki standa. Hætta var á, að Þorsteinn og margir aðrir sjálfstæðismenn legðust í hreina stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin mundi smám saman flosna upp og nýjar kosningar yrðu í vor.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa líka áttað sig á, að staða ríkisstjórnarinnar er slæm og fer hríðversnandi. Þeir hafa áhyggjur af slæmri útreið í næstu kosningum. Þeir eru opnari en áður fyrir mannaskiptum í ríkisstjórninni, ef það gæti lagað stöðuna.

Núverandi ráðherrar voru til skamms tíma vissir um, að meirihluti þingflokksins stæði að baki þeim, hverjum fyrir sig. Þess vegna neituðu þeir að standa upp. Nú hafa veður skipazt þannig, að hugsanlegt er, að einhver þeirra félli fyrir Þorsteini í atkvæðagreiðslu.

Verandi hættur við að hætta hefur Þorsteinn Pálsson ekki efni á að tapa þessari atrennu. Ef hann fær ekki stuðning, hefði hann betur staðið við desember-yfirlýsinguna. Steingrímur þarf líka á Þorsteini að halda, því að hann telur það geta blásið lífi í þreytta ríkisstjórn.

Niðurstaða málsins fer svo eftir, hvort nógu margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar, að þessi hugsanlega uppstokkun ríkisstjórnarinnar hafi í raun einhver umtalsverð áhrif, stjórnarflokkunum til góðs í næstu kosningum. Þeir velta sumir vöngum þessa dagana.

Jónas Kristjánsson.

DV