Hafa allt á hornum sér

Greinar

Íslenzkir klerkar hafa ekki alltaf verið sérstaklega kristilegir í framgöngu eða lífsháttum. Öldum saman stóð klerkastéttin framarlega í veraldlegu vafstri og átökum við meðbræður. Sumir frægðarklerkar brutu flest boðorð kristinnar kirkju einhvern tíma á ferli sínum.

Hugsanlegt er, að þjóðin vilji hafa þetta svona, hún vilji ekki, að klerkar hennar líkist heilögum mönnum, heldur að þeir líkist þjóðinni sjálfri. Hitt er þó sennilegra, að fólk vilji fremur en hitt, að prestar skari fram úr öðrum í kristilegu líferni og kristilegri framgöngu.

Þjóðin hefur að undanförnu orðið vitni að óskemmtilegum átökum af ýmsum toga í röðum kirkjunnar þjóna. Hæst heyrðist í gauraganginum á nýafstaðinni prestastefnu. Ekki er kunnugt um neina stétt manna, sem lætur eins ófriðlega á fundum og klerkastéttin gerir.

Af fyrirganginum mætti ætla, að klerkar séu persónulega ófullkomnari en annað fólk í landinu. Í venjulegum hópum er hægt að halda fundi, án þess að hnútur fljúgi um borð. Efast má því um, að sumir klerkar hafi stillingu og geðprýði til að vera sálusorgarar annarra.

Klerkar eiga í útistöðum hver við annan. Þeir eiga í útistöðum við safnaðarnefndir og aðra starfsmenn á vegum safnaðarnefnda. Þeir eiga sumir hverjir einnig í útistöðum við biskup og virðast þannig enn vera að taka þátt í síðasta biskupskjöri, sem lauk fyrir löngu.

Ef sumir klerkar eru slíkir klíkustefnumenn, að þeir geti ekki sætt sig við niðurstöður kosninga til biskups, er eðlilegt, að þeir bíði eftir næsta biskupskjöri til að þjóna þeirri stefnu. Það er hins vegar nýtt, að klerkar láti eins og ljón allan tímann milli biskupskosninga.

Engin stofnun fær staðizt, að smákóngar hennar séu í sífellu að troða illsakir við sjálfan biskupinn. Það er ekkert nýtt, að sumir kirkjunnar menn séu ókátir að loknu biskupskjöri, en þeir reyndu áður að dylja gremju sína. Nú hafa þeir hins vegar allt á hornum sér.

Í rauninni er ekki verið að gera miklar kröfur til klerka, þegar þeim er bent á, að láta biskupsembættið í friði og reyna að gera gott úr ágreiningi, sem varðar embættið. Þá er eingöngu verið að gera þær kröfur til þeirra, að þeir hagi sér eins og prestum sæmir.

Orðbragð sumra klerka í garð biskups er með þeim hætti, að fjölmiðlar hafa neyðst til að ritskoða það í fréttum, svo að umræðan komist þó upp á það lága plan, sem almennt gildir í skoðanaskiptum í þjóðfélaginu. Þjóðkirkjan stenzt ekki slíkt innra virðingarleysi.

Fjölmiðlar hafa síður en svo reynt að gera úlfalda úr mýflugu. Þeir hafa skýrt frá staðreyndum ágreiningsefna og fremur reynt að draga úr orðbragði kirkjunnar manna heldur en hitt. Innri vandamál kirkjunnar eiga ekki frekar rætur í fjölmiðlum en ull finnst í geitarhúsum.

Tímabært er, að ráðsettir menn innan klerkastéttarinnar taki sig saman um að ganga milli hinna skapstyggu klerka og minni þá á nauðsyn þess, að atferli þeirra og framganga skaði ekki kirkjuna sem stofnun og kristni í landinu frekar en þegar er orðið.

Margt er á hverfanda hveli í þjóðfélaginu. Uppivöðslumenn eru áberandi í stjórnmálum og félagsmálum. Sérhagsmunagæzla tröllríður samfélaginu, harla óvægin í seinni tíð. Þjóðfélagið í heild er að verða ruddalegra og harðara en áður. Það gildir um klerkana eins og aðra.

Meðan gerðar eru heldur meiri kröfur til presta en venjulegra dólga er þó líklegt, að með góðra manna hjálp megi varðveita stöðu kristninnar í þjóðlífsmynstrinu.

Jónas Kristjánsson

DV