Haffjarðará

Frá Stóra-Hrauni að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Þetta er miðhlutinn af Löngufjörum, samfelldur skeiðvöllur á leirum milli sögufrægra bæja. Í Skógarnesi bjó Æri-Tobbi. Þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum, kvað hann: “Smátt vill ganga smíðið á / í smiðjunni þó ég glamri, / þið skulið stefna Eldborg á / undir Þórishamri.” Þeir drukknuðu allir, sem hlýddu þessu ráði. Betra er að fylgja ráðum, sem hér eru gefin og GPS-ferlum, sem hér fylgja. Þurfa menn þá bara að krækja fyrir uppistöðulón og forðast sandbleytur.

Förum frá Stóra-Hrauni rétt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á djúpu Bænahúsavaði með góðum botni og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá skerinu förum við vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, norðan við Þórishamar þann, sem Æri-Tobbi orti um. Við förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

10,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðareyjar, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson