Hafið gengur á land

Greinar

Bæjarstjórn Garðabæjar er þegar komin í vanda vegna hugmyndar um landfyllingu í Arnarnesvogi og búast má við, að bæjarstjórn Reykjavíkur lendi í svipuðum vanda, þegar menn átta sig á, að hún er að leika sér með hugmyndir um mikla landfyllingu við Ánanaust.

Hingað til hafa skipuleggjendur sveitarfélaga litið á landfyllingar sem þægilega lausn til að losna við efni úr húsgrunnum. Ekki hefur verið hugsað um, hvernig náttúruöflum muni geðjast þessar framkvæmdir, enda telja menn yfirleitt, að ríkjandi ástand haldizt endalaust.

Nýjustu fréttir frá Sameinuðu þjóðunum benda til, að menn hafi hingað til vanmetið áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda. Ekki er lengur umdeilt í vísindaheiminum, að búast má við umtalsverðum breytingum á veðurfari, sjávarstöðu og ströndum í náinni framtíð.

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um þetta efni er um 1.000 blaðsíður, samin af 700 vísindamönnum og var birt á mánudaginn, þegar búið var að velta vöngum yfir hverju orði í henni að kröfu olíuvinnsluríkisins Sádi-Arabíu, sem óttast kröfur um höft á framleiðslu olíu.

Spáð er, að hafís og jöklar bráðni og sjór hækki. Spáð er, að veður verði ofsafengnari en áður hefur verið. Spáð er, að landgangur sjávar verði hastarlegri en áður. Spáð er, að gera verði hrikalega dýrar ráðstafanir til að vernda þá byggð, sem næst stendur sjávarmáli.

Þetta er bara hluti afleiðinga hækkaðs hitastigs á jörðinni, en sá hluti, sem hefur mest áhrif á strendur hafsins og skiptir mestu máli í ráðagerðum sveitarfélaga um mannvirki við sjávarsíðuna. Fátt bendir til, að skipulagsmenn sveitarfélaga hafi skilið þetta.

Sjórinn hefur öldum saman nagað ströndina við sunnanverðan Faxaflóa. Skýrt dæmi um það er Seltjarnarnes, sem hefur rýrnað um helming síðan fyrstu dönsku sjókortin voru gerð. Miklir sjóvarnargarðar hafa verið reistir á svæðinu til að verjast áganginum.

Með tilkomu gróðurhúsaáhrifa eru þessar breytingar að verða margfalt hraðari. Ísþekjan í Norðurhöfum og Grænlandsjökull bráðna margfalt örar en áður. Aukin tíðni og meiri harka ofsaveðra mun kalla á hækkun og eflingu sjóvarnargarða víðs vegar um Faxaflóa.

Í mestri hættu verða landfyllingar, svo sem úti í Örfirisey, þar sem allt svæðið er í lágmarkshæð yfir sjávarmáli. Sama mun gilda um allar landfyllingar í umræðunni, hvort sem þær eru fyrir íbúðir í Arnarnesvogi og við Ánanaust eða fyrir flugvöll á Lönguskerjum.

Miklu nærtækara fyrir sveitarfélög á svæðinu er að afla sér gagna Sameinuðu þjóðanna og fara að gera ráðstafanir til að verja það land, sem fyrir er, heldur en að vera að gamna sér við landvinninga, sem byggjast á þeirri augljósu firru, að náttúran haldist óbreytt.

Þar á ofan er mikilvægt fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að vekja landstjórnina til vitundar um, að róttækar ráðstafanir gegn losun gróðurhúsalofttegunda séu beinlínis hagsmunamál fyrir Ísland og Íslendinga, en ekki eitthvert leiðindatuð til að valda kostnaði.

Í stað þess að berjast með sérkröfum gegn sáttmálum um varnir gegn gróðurhúsaáhrifum ber íslenzkum stjórnvöldum að gæta hagsmuna íslenzkrar sjávarsíðu með öflugum stuðningi við róttækar aðgerðir gegn hættunni, sem steðjar að allri byggð á sjávarströndu.

En fyrst þurfa bæjarstjórnir sveitarfélaga á borð við Reykjavík og Garðabæ að vakna til vitundar um, að ráðagerðir um landfyllingar eru algerlega ótímabærar.

Jónas Kristjánsson

DV