Hafmeyjan

Veitingar

Þú vilt verða sjálfstæður. Þú ferð í bankann og slærð lán. Þú kaupir veitingaaðstöðu, sem er laus vegna flutnings eða eins af hinum tíðu gjaldþrotum í greininni. Þú lætur inn frystikistu og örbylgjuofn og fyllir kistuna af alls konar fiski. Þú ferð á Hótel Holt og skrifar upp verð af matseðlinum. Þú setur Dóra trukk í eldhúsið og opnar staðinn. Enginn kemur. Þar sem enn er eftir hluti af bankaláninu, ferðu í sumarfrí og biður Öddu frænku að passa sjoppuna á meðan. Þú kemur aftur. Enn kemur enginn. Þú gerist einn af mörgum fyrrverandi veitingamönnum.

Auðveldara í
pólitíkinni

Syrpu af þessu tagi hef ég nokkrum sinnum séð endurtekna í ýmsum tilbrigðum á undanförnum árum. Ég veit ekki, hvort Hafmeyjan við Laugarveg fellur undir lýsinguna að einhverju leyti. En mér finnst ég kannast við vandamálið. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að eigendurnir eigi freka
r heima í pólitík, þar sem menn komast langt á bjartsýninni einni.
Erfitt er að hugsa sér, að veitingahús þrífist á þessum stað, sem er orðinn einkar fátæklegur, síðan austurlenzka skrautið hvarf við brottflutning Taj Mahal niður á Hverfisgötu. Eftir er fremur skuggalegur staður með glerplötum á borðum í þröngum básum eins og í mötuneyti fyrir róna í París. Eins og er hefur staðurinn enga jákvæða ímynd.

Svo mikil samkeppni er í veitingabransanum, að nýir staðir fá ekki staðizt, nema þeir hafi eitthvað fram að færa, sem getur dregið að, annaðhvort innihald eða ímynd eða hvort tveggja. Nýir veitingastaðir þurfa annað hvort að vera með sérstaklega góðan mat, sérstaklega ódýran mat eða byggja í þess stað á einhverri ímynd, það er að segja stælum eða rugli, sem gengur í pupulinn, svo sem að hann eldi sjálfur við borðið.

Óvenjulega
vondur matur

Úr eldhúsinu kom óvenjulega vondur matur. Einkum á það við um sjávarréttina, sem sagðir eru vera sérgrein Hafmeyjarinnar. Helzta undantekningin fólst í léttsteiktum lambalundum, sem voru meyrar og fínar, bornar fram með bakaðri kartöflu.

Auglýst voru ágæt tilboð úti á stétt, þar á meðal þetta lambakjöt, sem kostaði 1890 krónur með súpu á undan og kaffi á eftir. Hitt tilboðið var enn girnilegra, 12-15 humrar með súpu á undan og kaffi á eftir á einungis 1790 krónur. Þessu tilboði er ekki auðvelt að hafna.

Þetta er frábært verð fyrir dýrt hráefni, þótt humarinn sé smár. Hann var borinn fram á haugi af rækjublönduðu hrásalati. Því miður hefði kokkurinn mátt þiggja faglega leiðsögn um, að humar má einungis snöggelda. Hann verður fljótt þurr og seigur, ef ekki er passað upp á sekúndurnar.

Hafmeyjan bauð einnig upp á grafið og oregon-kryddað lamb með melónu og jarðarberjasultu í forrétt. Ég skildi ekki hlutverk sultunnar, en oregonið gaf kjötinu skemmtilega ákveðið bragð.

Súpur dagsins reyndust jafnan vera sama súpan, hversdagsleg spergilsúpa, þar sem hveiti hafði ekki verið sparað, borin fram með volgu brauði og smjöri.

Fullunnin ýsa og
fullunninn lax

Ýsa dagsins, borin fram með blaðlauk og sveppum, var úr frysti og sennilega hituð í örbylgjuofni. Hún minnti lítið á ýsuflökin, sem Reykvíkingar eru vanir að kaupa í fiskbúðum.

Ég legg til, að áhugamenn um bann við útlutningi á ferskum fiski, sem þeir kalla ,,óunninn”, séu látnir svæla í sig freðýsunni í Hafmeyjunni, svo að þeir viti, hvernig er sú “fullunna” vara, sem þeir vilja, að hafi forgang í útlutningi, til milljarðaskaða fyrir þjóðarbúið.

Grillaður lax var borinn fram með hvítri mjólkursósu, sem hét hvítvínssósa. Hann var hinn versti, sem ég man eftir að hafa fengið um árabil, þurr og skorpinn, feiknarlega mikið steiktur og kryddaður einhverju annarlegu kryddi. Lax minnir á humar að því leyti, að hann krefst nokkurrar nákvæmni í eldunartíma.

Ferskir ávaxtabitar í ísvöffluhorni voru frambærilegir. Ís var sæmilegur, borinn fram með staupi af Grand Marnier til hliðar. Súkkulaðibúðingur var mjög vondur, borinn fram með gamalþeyttum rjóma.

Útvarp
á fullu

Í hádeginu var útvarpið látið glymja með gauli og auglýsingum á fullu. Um kvöldið var mild músík á bandi. Mikið er um plastblóm milli bása. Þau eru arfur frá fyrra veitingahúsi staðarins, svo og japanskar lugtir yfir barnum.

Þegar frá eru talin tilboð dagsins, sem skráð eru úti á stétt, og þrír aðalréttir á seðli dagsins, var staðurinn fremur dýr. Miðjuverð þriggja rétta af fastaseðli að kaffi meðtöldu var 2.945 krónur. Hvergi í bænum hef ég keypt dýrari bolla af expresso-kaffi, 190 krónur takk.

Aldrei sá ég neinn viðskiptavin á þessum einkennilega stað.

Jónas Kristjánsson

DV