Evrópa er orðin svo græn í hugsun, að þýzk stjórnvöld hafa lengi verið grænni en Vinstri grænir á Íslandi. Jafnvel í Miðjarðarhafslöndum á borð við Ítalíu eru menn almennt farnir að lesa á umbúðir matvæla. Og um eitt eru allir sammála: Þeir vilja alls ekki kaupa erfðabreytt matvæli.
Mál standa allt öðru vísi á Íslandi, svipað og vestan hafs. Á Íslandi er rekið hávaðasamt fyrirtæki í erfðabreytingum, sem jafnan tekur til sóknar, þegar minnst er á erfðabreytt matvæli. Á Íslandi hefur verið leyft að nota erfðabreytt korn, sem engum í Evrópu og víðar dytti í hug að leyfa.
Um skeið bannaði Evrópusambandið erfðabreytt matvæli, en er byrjað að leyfa þau núna, svo framarlega sem þess sé getið á umbúðum. Hins vegar þýðir ekkert að reyna að selja þau. Kaupmenn vilja þau alls ekki og verzlanakeðjur telja, að þau muni koma óorði á sig og neita harðlega að taka þau í sölu.
Bandaríkin hafa kært Evrópusambandið og vilja ekki, að merkja þurfi erfðabreytt matvæli sérstaklega. Þau vilja ekki, að neytendur í Evrópu fái að velja og hafna. Þau vilja troða erfðabreyttum matvælum í kyrrþey ofan í Evrópumenn gegn vilja þeirra sjálfra. Þau heimta upplýsingaskort.
Höfnunin snýst um eindreginn vilja neytenda og kaupmanna í Evrópu. Þetta hefur haft áhrif í heimsviðskiptum. Evrópa gefur tóninn. Ýmis lönd í þriðja heiminum hafa hafnað erfðabreyttu korni og sojabaunum og hafa leyst Bandaríkin af hólmi sem seljendur matvæla úr þessum hráefnum til Evrópu.
Svo eindreginn er vilji Evrópumanna, að menn lesa texta á umbúðum og telja ekki koma annað til greina, en að sagt sé satt og rétt, að erfðabreytt efni séu í innihaldinu, ef um þau er að ræða. Jafnvel Ítalir, sem lengi hafa verið taldir rólegir í tíðinni, lesa umbúðir og neita erfðabreyttum mat.
Deilan milli Bandaríkjanna og Evrópu snýst ekki lengur bara um, hvort erfðabreytt matvæli séu hættuleg. Flestir telja ekki hafa enn sannazt neitt athugavert við þau. Deilan snýst fyrst og fremst um, hvort Evrópumenn megi hafa upplýsingar til að hafna erfðabreyttum mat, ef þeir vilja hann ekki.
Í Evrópu hefur lengi verið mikil umræða um náttúruvernd, sjálfbæran landbúnað og réttlæti í kjörum starfsmanna í landbúnaði, rétt eins og umræða um olíusparnað og verndun vistkerfis, sem Bandaríkjamenn virðast kæra sig lítið um. Það er hluti gjárinnar, sem myndast hefur innan vesturlanda.
Eins og stundum áður hafa Íslendingar, fjölmiðlar jafnt sem almenningur og kaupmenn, ákveðið, að þessi umræða skipti sig litlu og umræðan um erfðabreyttan mat skipti sig alls engu.
Jónas Kristjánsson
DV