Hafnarfjarðarbrandarinn

Greinar

Hafnarfjörður ætti að vera ríkur. Hann hefur skatta af heilu álveri umfram önnur sveitarfélög í landinu. Stóriðja er fengur, sem sveitarfélög bítast um, þótt dæmi Hafnarfjarðar sýni, að fengur þarf ekki að vera happafengur, ef bæjaryfirvöld kunna lítið með fé að fara.

Sterk bein þarf til að þola góða daga. Miklar tekjur Hafnarfjarðar hafa gert bæjarfélagið að eins konar peningafíkli, sem jafnóðum eyðir umframtekjunum, einkum í fyrirgreiðslur af ýmsu tagi. Því hefur þar á ofan tekizt að verða eitt af skuldugustu bæjarfélögum landsins.

Nýi miðbærinn í Hafnarfirði er dæmi um ógætilega meðferð fjármuna. Fyrir fjórum árum átti hann að verða bæjarstolt, en er nú orðinn að martröð, sem hefur þegar gleypt tugi milljóna af bæjarbúum og fer sennilega nálægt 250 milljóna króna tjóni, þegar upp er staðið.

Þáverandi bæjarstjóri og síðar skammlífur fyrirgreiðsluráðherra hafði frumkvæði að því að knýja fram miðbæinn. Hann sá þar fyrir sér víðtæka þjónustu, svo að bæjarbúar gætu sinnt þar allri þörf sinni fyrir þjónustu og jafnvel gist þar á hóteli, “sem bráðvantar”.

Stórhugurinn minnti á fræga listahátíð, sem haldin var á valdatíma þessa bæjarstjóra. Hún var að mörgu leyti góð, en hafði svart gat, þar sem fjármálin áttu að vera. Til dæmis var endurprentaður bæklingur, af því að þar vantaði litmynd af bæjarstjóranum.

Er kynntar voru teikningar af miðbænum fyrir fjórum árum, mótmæltu 5356 Hafnfirðingar, sem töldu hin fyrirferðarmiklu mannvirki spilla útliti bæjarins. Lítið mark var tekið á mótmælunum, enda töldu bæjarfeður sig vera að reisa sjálfum sér ódauðlegan minnisvarða.

Fyrir þremur árum var strax orðið ljóst, að dæmið var hrunið. Bærinn hafði orðið að veita 120 milljón króna ábyrgðir, kaupa hlut í húsnæðinu fyrir 60 milljónir og fella niður lóðagjöld upp á 50 milljónir króna. Samt voru fyrirtæki og eru treg til að setjast þar að.

Fyrir ári voru svo skuldir miðbæjarins orðnar 475 milljónir króna, 55 milljónir króna umfram eignir. Afleiðingin varð þá sú, að bærinn keypti hluta hússins, hótelturninn, fyrir 260 milljónir króna og tók að sér að ljúka framkvæmdum. Það hefur bænum ekki enn tekizt.

Nú er miðbærinn gjaldþrota. Bæjarstjórinn hefur samþykkt nauðasamninga og afskrifað 90% af kröfum bæjarins. Þannig er miðbæjarævintýri og -martröð Hafnarfjarðar um það bil að komast á rökréttan og fyrirsjáanlegan leiðarenda sem stóri Hafnarfjarðarbrandarinn.

Miðbærinn í Hafnarfirði er dæmi um bæjarmálastefnu, sem leggur áherzlu á fyrirgreiðslu, einkum við verktaka. Bærinn hefur á sama tíma tapað tugum milljóna af vinsemd við verktaka, sem situr sjálfur í bæjarstjórn og tekur þar þátt í að halda uppi meirihluta.

Bæjarmálastefnan náði hámarki á valdaferli áðurnefnds bæjarstjóra, sem síðar varð skammlífur fyrirgreiðsluráðherra. Sem bæjarstjóri lét hann greiða vildarmönnum miklar fjárhæðir umfram laun og útvega öðrum ýmiss konar fríðindi, svo sem ódýrt húsnæði.

Hafnarfjarðarbrandarinn hefur framlengzt hjá eftirmönnunum, sem eru aldir upp í sama sljóleikanum gagnvart peningum. Þeim hefur tekizt að gera brandarann að sérstöku flokksmáli Alþýðuflokksins í Hafnarfirði og þjappa sér saman gegn meintum ofsóknum umhverfisins.

Ástandið hefði líklega aldrei orðið svona alvarlegt í Hafnarfirði, ef bærinn hefði ekki unnið álver í happdrætti og látið það gera sig að peningafíkli.

Jónas Kristjánsson

DV