Hafnbann

Greinar

Meðan spennan vex við Persaflóa berast fréttir af, að íslenzkir aðilar séu að gamna sér við að græða á togaraútgerð í Burma, þar sem ríkir eitt versta stjórnarfar álfunnar. Eins og í Írak ríkir þar þvílíkt hernaðareinræði, að hermenn skjóta fólk til bana á almannafæri.

Í leiðurum DV hefur á undanförnum árum nokkrum sinnum verið vakin athygli á, hversu viljugir vestrænir aðilar hafa verið að styðja við bakið á harðstjóranum Saddam Hussein í Írak, þótt stjórnarfar hans hafi verið heldur verra en til dæmis erkiklerkanna í Íran.

Hinn herskái Saddam Hussein hefur í áratug verið byggður upp með bandarískum peningum og evrópskum vopnum. Í takmarkalítilli bjartsýni lánuðu Vesturlönd honum rúmlega 30 milljarða dollara, meðal annars til að halda uppi árásarstríði gegn nágrönnum í Íran.

Nú hafa aðstæður breytzt á Vesturlöndum. Harðstjórar af ýmsu tagi geta miklu síður en áður sníkt fé og vopn af auðugum ríkjum með því að spila á hagsmunaágreining austurs og vesturs. Kalda stríðinu er lokið og Vesturlönd þurfa ekki að kaupa stuðning harðstjóra.

Endalok kalda stríðsins í Evrópu eru í þann veginn að kippa fótunum undan harðstjórum um allan hinn þriðja heim, allt frá Moi í Kenya til Castro á Kúbu. Þessi endalok komu í tæka tíð fyrir nýjustu tilraun Saddams Hussein til útþenslu á kostnað nágrannaríkja.

Hinn evrópsk-ameríski heimur er nokkurn veginn samstilltur, allt frá Washington til Moskvu. Alls staðar eru menn sammála um viðskiptabann á Írak og þau svæði, sem það hefur hernumið. Í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur þessi samstaða borið ávöxt.

Menn greinir aðeins á um, hvort rétt sé að fylgja banninu eftir með aðgerðum, sem jaðra við hafnbann. Frakkland hefur oft áður verið á mildum og ódýrum sérleiðum og er það einnig núna, með þátttöku Sovétríkjanna. Þessi ríki hafa lýst efasemdum um hafnbann.

Ef ætlunin er á annað borð að stöðva Saddam Hussein, dugir ekki að setja upp franska silkihanzka. Til dæmis er fráleitt, að slóttugur Hussein Jórdaníukonungur geti í orði stutt viðskiptabann, en látið nota land sitt til að flytja vörur milli Akabaflóa og Íraks.

Vesturlönd þurfa að loka Persaflóa og Akabaflóa og stöðva með valdi þau skip, sem líkur eru á, að muni rjúfa viðskiptabannið. Vesturlönd þurfa líka að vera viðbúin, að Saddam Hussein víkki stríðið með því að senda her inn í vinaríki sitt, land Jórdaníukonungs.

Vesturlandabúar verða að átta sig á, að Saddam Hussein verður ekki friðaður frekar en Adolf Hitler var friðaður á sínum tíma. Slíkir harðstjórar verða ekki talaðir til með orðaleikjum um mun á viðskiptabanni og hafnbanni. Verkin verða sjálf að tala. Það þýðir hafnbann.

Vesturlandabúar verða að muna, að Saddam Hussein hefur safnað sér efnavopnum og beitt þeim óspart, ekki aðeins gegn Írönum, heldur einnig gegn íbúum eigin lands. Hann er alveg siðlaus, í vestrænum skilningi þess orðs, þótt ýmsir íslamar hafi á honum dálæti.

Með aðstoð vestrænna fyrirtækja er Saddam Hussein kominn langleiðina í kjarnorkuvopn. Talað hefur verið um, að hann eigi þrjú eða fjögur ár eftir, ef viðskiptabannið tefur hann ekki. Óhjákvæmilegt verður að stöðva hann fyrir þann tíma, helzt núna strax.

Að loknu köldu stríði geta Vesturlönd nú farið að verja öryggi sitt gegn vestrænum kaupahéðnum og harðstjórum þriðja heimsins, svo sem í Burma eða Írak.

Jónas Kristjánsson

DV