Mörg þeirra mála, sem núna brenna heitast á okkur, eru þess eðlis, að annað sjónarmiðið á sér enga heimahöfn meðal stjórnmálaflokkanna. Kosningarnar í vor verða ekki neinn kostur í stöðu margra kjósenda, sem sjá hvergi tekið undir sín mál af neinni alvöru.
Margir eru þeir, sem vilja gerast aðilar að Evrópusambandinu, af því að þeir telja, að slíkt efli samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og bæti lífskjör fólks, magni réttlæti í landinu og dragi úr möguleikum vondra stjórnmálamanna innlendra að verjast þessu öllu.
Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er ekki lengur unnt að vænta heimahafnar fyrir þessi sjónarmið hjá Alþýðuflokknum. Samkvæmt málefnasamningi segja þessir flokkar sameiginlega pass í málefnum Evrópu. Heimahöfn Evrópukrata er horfin.
Margir eru þeir, sem vilja koma auðlindum hafsins aftur í þjóðareign og hefja uppboð á þeim takmarkaða aðgangi, sem að þeim er. Þeir telja þetta vera réttlætismál og leið heiðarlegs markaðsbúskapar, þegar skömmtun er óhjákvæmileg á takmörkuðum gæðum.
Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, ekki einu sinni flokkurinn, sem segist vera lengst til vinstri og þá væntanlega mesti sameignarflokkurinn. Forustumaður þess flokks er raunar einn helzti málsvari sægreifanna.
Margir eru þeir, sem vilja hindra, að einni eða fleirum af helztu náttúruperlum landsins verði sökkt í miðlunarlónum orkuvera og lagðar raforkulínur um ósnortin víðerni landsins. Þeir vilja til dæmis, að Þjórsárver og Eyjabakkaver fái að halda sér eins og þau eru.
Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, nema flokkur Hjörleifs Guttormssonar, en kjósendur hans verða þá í leiðinni að sætta sig við vaðmálssósíalisma í landbúnaði og stuðning við sægreifa gegn almannahagsmunum.
Margir eru þeir, sem vilja ekki, að lögmál markaðsbúskapar séu brotin með því að veita einu fyrirtæki sérleyfi á mikilvægum sviðum heilbrigðisrannsókna, og vilja ekki, að mannréttindi séu brotin með hættulegri krosstengingu persónuupplýsinga á einum stað.
Enginn stjórnmálaflokkur býðst til að lýsa því yfir, að hann vilji láta afturkalla forréttindin án þess að skaðabætur verði greiddar, af því að forustuliði forréttindafyrirtækisins sé kunnugt um, að pólitískur ágreiningur sé og muni verða um veitingu forréttindanna.
Hér hafa verið rakin fjögur dæmi um útbreidd sjónarmið, sem eiga hvergi heima í kosningabaráttunni. Til skamms tíma nutu sjónarmið af slíku tagi helzt skjóls hjá Alþýðuflokknum, sem jafnframt var þekktur sem valdaflokkur af ótryggum stuðningi við eigin stefnu.
Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hafa með öllu horfið haldlitlar væntingar um sérstöðu Alþýðuflokksins. Samstaðan er nokkurn veginn nákvæmlega eins og flokkur og tvíburaflokkur Framsóknar og Sjálfstæðis og býður því engan kost í stöðunni.
Því miður er ekki jarðvegur fyrir stjórnmálaflokk, sem setti mál af þessu tagi á oddinn. Þótt hægt væri að ná saman framboðsliði heiðarlegs og vel metins fólks, sem hefði náð árangri í starfi hvert á sínu sviði, þá mundu kjósendur aðeins gefa slíku framboði þrjú þingsæti.
Þessi íhaldssömu viðhorf kjósenda eru myllusteinn um háls þeirra sjálfra og valda því, að stjórnmál snúast í raun um fyrirgreiðslur í þágu pólitískra gæludýra.
Jónas Kristjánsson
DV