Hagfræði fyrir ráðherra

Greinar

Þegar nokkrir ráðherrar eru komnir á bólakaf í pytt hagfræðitilrauna, sem eru fráleitari en verið hafa um langt skeið, er örugglega hentugt að rifja einu sinni upp Litlu gulu hænuna í fræðinni, hinum ævintýragjörnu kreppusmiðum ríkisstjórnarinnar til halds og trausts.

Til aukins skilnings á þjóðfélaginu er því oft skipt í þrennt, fyrirtækin, heimilin og hið opinbera. Notkun peninga á hverjum hinna þriggja staða er gjarna skipt í neyzlu og fjárfestingu. Samtals verða úr þessu aðeins sex hagfræðistærðir, sem mestu máli ættu að skipta.

Eðlilegt er, að þjóð skipti sér í stjórnmálaflokka með nokkurri hliðsjón af þessum stærðum. Einn hópurinn, sem kalla mætti réttlætissinna, vildi þá auka samneyzlu á kostnað annarra þátta dæmisins, til dæmis fjárfestingar fyrirtækja eða einkaneyzlu umfram eitthvert mark.

Annar hópurinn, sem kalla mætti auðgunarsinna, vildi hins vegar auka fjárfestingu fyrirtækjanna á kostnað annarra þátta, svo sem einkaneyzlu og einkum þó samneyzlu á vegum hins opinbera, af því að það væri bezta leiðin til að stækka kökuna, sem deilt er um.

Verðmætin í þjóðfélaginu verða til í atvinnulífinu. Mestum hluta þeirra er síðan dreift yfir allt þjóðfélagið í mynd einkaneyzlu og samneyzlu. Afgangurinn er sparaður til fjárfestingar fyrirtækja, heimila eða hins opin bera. Þessi sparnaður hefur minnkað hér á landi.

Þegar hlutdeild sparnaðar í þjóðarframleiðslu hefur minnkað frá árinu 1972 úr 31% í 15% árið 1988, hafa sjónarmið auðgunarsinna greinilega farið halloka fyrir sjónarmiðum hinna, sem vilja dreifa réttlætinu sem fyrst, þótt réttlætiskakan sé þá minni en ella yrði.

Þessi breyting endurspeglar, að allir stjórnmálaflokkar landsins hafa á þessu tímabili meira eða minna fylgt í framkvæmd stefnu hins bráða eða óþolinmóða réttlætis. Þeir hafa allir fremur viljað dreifa gæðum lífsins en stuðla að myndun nýrra gæða til síðari dreifingar.

Smám saman hefur þetta verið að breyta þjóðinni í gæludýr. Smám saman hefur fólk fjarlægzt áhugann á að búa til seljanleg verðmæti og færst nær því að verða gæludýr, sem lifa á gustuk stjórnmálamanna. Þjóðin er að breytast úr vinnandi fólki í þrýstihópa.

Í þessum sviptingum er fólk óðum að missa sjónar á mismun fyrirtækja sem stofnana til verðmætasköpunar og ríkiskontóra sem stofnana til verðmætadreifingar. Til dæmis hefur heilli atvinnugrein, landbúnaðinum, verið breytt í ríkiskontór, sem dreifir fé.

Ört fjölgar þeim, sem vilja leggjast í náðarfaðm ríkisins, eins og landbúnaðurinn hefur áður gert. Afkoma fyrirtækja hættir smám saman að ráðast af gildi þeirra til verðmætasköpunar og ræðst í vaxandi mæli af aðstöðu þeirra til að komast að jötu Stóra bróður.

Í sviptingunum missir fólk einnig sjónar af mælikvarðanum, sem aðrar þjóðir nota til að mæla verðgildi. Úti í umheiminum hefur reynzt áhrifaríkast, að láta framboð og eftirspurn vegast á skálum markaðar, þar sem verð endurspeglar ekki tilkostnað seljandans.

Hér vilja menn heldur, að stjórnmálamenn taki í sovézkum stíl að sér hlutverk markaðarins og ákveði með handafli, hvert skuli vera verð allra hluta. Hér vilja menn, að sett séu upp flókin kerfi til að mæla, hver sé tilkostnaður hvers og hvert skuli vera réttlæti hvers.

Hver þjóð velur sér stjórnmálamenn við hæfi. En skrítið er, að við skulum bara vilja menn og flokka, sem eru allir nokkurn veginn á sömu gæludýralínunni.

Jónas Kristjánsson

DV