Bandaríkjastjórn hefur neyðzt til að samþykkja að loka herstöð sinni á Torrejon-flugvelli á Spáni, þótt fulltrúar hennar hafi lagt afar hart að Spánarstjórn að leyfa henni að vera. Þessi niðurstaða er töluvert skakkafall í hermálasamskiptum Bandaríkjanna við umheiminn.
Samningaharka Spánarstjórnar dafnaði í útbreiddri Bandaríkjaóbeit meðal Spánverja. Óbeitin á sér rætur í óbeinum stuðningi Bandaríkjanna við einræðisstjórn Francos, sem var við völd til ársloka 1975. Sú tímaskekkja verður seint þurrkuð úr minni Spánverja.
Bandaríkjastjórn á enn erfiðari samskipti við Grikki og stjórnina í Grikklandi, þar sem einnig eru bandarískar herstöðvar. Grikkir hafa ekki fyrirgefið og munu seint fyrirgefa Bandaríkjunum óbeinan stuðning þeirra við grísku herforingjastjórnina árin 19671974.
Sárin, sem Bandaríkin hafa skilið eftir í þessum tveimur gamalgrónu þjóðum vestrænnar menningar, eru ekki nærri eins djúp og í ýmsum þjóðum þriðja heimsins, þar sem sendimenn Bandaríkjanna hafa af sígildum hagkvæmnisástæðum stutt margs konar dólga.
Þjóðir Suður- og Mið-Ameríku eru skýrasta dæmið um þetta. Bandaríkin hafa beinlínis rústað lýðræði og efnahag margra þjóða svæðisins með stuðningi við helztu varmenni þess, svo sem Batista á Kúbu, Somoza í Nicaragua, Duvalier á Haiti og Pinochet í Chile.
Í sumum tilvikum tóku Bandaríkjamenn þátt í að koma slíkum til valda, en misstu síðan tökin á þeim. Þannig fara sínu fram Noriega í Panama og Pinochet í Chile án þess að leita ráða hjá Bandaríkjastjórn eða þiggja ráð þaðan. En ábyrgðin er eigi að síður Bandaríkjastjórnar.
Persónugervingur hins svokallaða hagkvæmnissjónarmiðs í utanríkisstefnu Bandaríkjanna er Henry Kissinger. Hann hefur bæði í skrifum og verki haft þá stefnu, að ekki þýddi fyrir heimsveldi að vera að vasast í mannréttindum og öðrum kerlingalegum vælumálum.
Til dæmis kom Kissinger Pinochet til valda í Chile. Og hann sagði sjálfur við glæpa-herforingjana í Argentínu, að Bandaríkjastjórn neyddist til að gagnrýna, að þeir pynduðu og myrtu þúsundir Argentínumanna, en þeir skyldu bara ekki taka neitt mark á gagnrýninni.
Hatrið á Bandaríkjunum í kjölfar eyðingaráhrifa Kissingers og annarra slíkra er gífurlegt í Suður- og Mið-Ameríku. Óbeitin, sem ríkir á Spáni og í Grikklandi, er lítilfjörleg í samanburði. Bandaríkin verða áratugi að bæta Rómönsku Ameríku fyrir brot sín.
Eini Bandaríkjaforsetinn, sem vék í verki af þessari óheillabraut, var Jimmy Carter. Á valdaskeiði hans fór vonarneisti um þjóðir þriðja heimsins. Bandaríkin urðu þá á nýjan leik tákn frelsis og reisnar mannsins. Öll verk Carters hafa síðan skipulega verið eyðilögð.
Svo lokaðir eru Bandaríkjamenn fyrir hinum sagnfræðilegu hættum hagkvæmnisstefnunnar, að jafnvel fréttaskýrendur þar vestra, sem eiga að vita betur, telja enn Carter hafa verið ómögulegan forseta og Kissinger hafa verið mjög snjallan skákmann í alþjóðamálum.
Rústir stefnu Kissingers og núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar eru sýnilegar víða um álfur. Í Mósambík í Afríku hafa Bandaríkin til dæmis árangurslaust stutt fjöldamorðingja Renamos, sem eru sennilega mestu varmenni álfunnar og er þá mikið sagt.
Bandarískt framferði í Nicaragua og annars staðar varðar allar vestrænar þjóðir, því að hagkvæmni líðandi stundar hefnir sín á Vesturlöndum framtíðarinnar.
Jónas Kristjánsson
DV