Hagkvæmniskenningin

Greinar

Röð skoðanakannana var birt hér í blaðinu á aðfaratíma forsetakosninganna 1980. Þær sýndu mjög jafnt fylgi Vigdísar Finnbogadóttur og Guðlaugs Þorvaldssonar. Þau skiptust raunar á um forustuna í þessum könnunum eins og í könnunum annarra aðila á þessum tíma.

Samkvæmt kenningunni um hagkvæmnishugsun kjósenda hefðu kannanirnar átt að skerpa muninn á fylgi Vigdísar og Guðlaugs annars vegar og Alberts Guðmundssonar og Péturs Thorsteinsson hins vegar. Fylgi hefði átt að færast yfir á þau, sem efst stóðu.

Kjósendur hefðu þá hugsað sem svo, að úr því að kannanir sýndu vonlitla aðstöðu þess frambjóðanda, sem þeir studdu, skyldu þeir í kosningunum flytja atkvæði sitt yfir á þann næstbezta til þess að reyna að koma í veg fyrir, að keppinautur hins næstbezta yrði valinn.

Þetta gerðist ekki. Þvert á móti jókst fylgi Alberts og Péturs jafnt og þétt í þessum könnunum. Í kosningunum sjálfum náðu þeir heldur meira fylgi en þeir höfðu haft í könnunum aðfaratímans. Kjósendur þeirra brugðust þeim ekki, þrátt fyrir hagkvæmniskenninguna.

Í hörðum tölum jókst fylgi Alberts um 2,9 stig og Péturs um 6,5 stig, meðan fylgi Vigdísar minnkaði um 5,2 stig og Guðlaugs um 4,0 stig. Þetta er prósentubreyting síðustu tveggja mánaðanna, allt frá fyrstu könnun blaðsins til sjálfra úrslita forsetakosninganna.

Á aðfaratímanum vildu sumir æstustu stuðningsmenn Alberts og Péturs kenna könnunum um, að þeir væru frystir í botnsætunum og athyglin beindist öll að Vigdísi og Guðlaugi. Reynslan staðfesti þetta ekki, jafnvel þótt hagkvæmnishugsun hefði getað ráðið úrslitum.

Nú eru aðstæður að því leyti ólíkar, að skoðanakannanir sýna enga raunverulega samkeppni milli tveggja efstu manna. Því er ólíklegra nú en var fyrir sextán árum, að stuðningsmenn þriggja lægri frambjóðendanna muni nota hagkvæmniskenninguna í kjörklefanum.

Skoðanakannanir sýna ekki heldur neinn flutning fylgis frá þremur lægri frambjóðendunum til tveggja hærri frambjóðendanna. Þvert á móti hefur hið sama gerzt og 1980, að fylgi hinna fyrrnefndu hefur að mestu farið hækkandi eftir því sem kosningarnar nálgast.

Þarft er að rifja þetta upp núna, því að enn eru komnar á kreik kenningar um óviðeigandi áhrif skoðanakannana á fyrirætlanir kjósenda. Þessar kenningar fara oft saman við kenningar um, að það sé í þágu lýðræðis að banna kannanir, að minnsta kosti fyrir kosningar.

Flestir eru þó sammála um, að niðurstöður skoðanakannana, sem vel eru framkvæmdar, séu staðreyndir. Flestir stjórnmálamenn eru svo sannfærðir um nákvæmni kannana, að þeir velta vöngum yfir breytingum eða mun, sem er innan skekkjumarka þessara kannana.

Aldrei hefur verið unnt að rökstyðja á sannfærandi hátt, hvers vegna ætti að setja hömlur á staðreyndir, sem eru nytsamlegar kjósendum. Fremur ætti að fjölga en fækka staðreyndum, sem kjósendur hafa sér til halds og trausts í innihaldsrýrum áróðurshríðum baráttunnar.

Jafnvel þótt skoðanakannanir hefðu þau áhrif að færa fylgi til þeirra, sem mesta hafa möguleikana, er ekki auðvelt að sjá, hvers vegna ætti að taka þann áhrifavald sérstaklega fyrir og fordæma hann. Og þar á ofan virðast áhrifin alls ekki vera þau, sem kenningin segir.

Málið snýst raunar um, að skoðanakannanir eru blóraböggull þeirra, sem þurfa að leita óvinar í gremju sinni yfir, að þeirra frambjóðanda gengur ekki sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV