Hagsmunastríð um banka

Greinar

Einkavæðing ríkisbankanna er ekki dæmigert forgangsverkefni hinnar afturhaldssömu ríkisstjórnar, sem nú er við völd hér á landi. Þessi einkavæðing er að vísu í stjórnarsáttmálanum, en það er samt andstætt eðli helmingaskiptaflokka að minnka umsvif ríkisvaldsins.

Markmið stjórnarflokkanna hefur áratugum saman verið að tryggja sjálfum sér aðstöðu í ríkisvaldinu til að tryggja hagsmuni sína sem flokka og hagsmuni valinkunnra flokksbrodda og gæludýra flokksins úti um borg og bý, einkum fyrirtækja kolkrabba og smokkfisks.

Aðrir flokkar hafa hliðstæð markmið, en leggja þó fremur áherzlu á hagsmuni flokksbroddanna heldur en gæludýranna. Stjórnarflokkarnir hafa sérstöðu vegna áherzlu sinnar á hagsmuni stóru fyrirtækjanna í landinu annars vegar og landbúnaðarkerfisins hins vegar.

Innan kolkrabbans eru menn á báðum áttum um einkavæðingu ríkisbankans. Út á við styðja flestir valdamenn hans einkavæðinguna, af því að hún gefur fyrirtækjum þeirra tækifæri til að kaupa handa þeim stjórnarsæti með tilheyrandi völdum, virðingu og verðmætum.

Öðrum þræði eru menn kolkrabbans þó sáttir við ríkjandi ástand. Það hefur svo lengi, sem elztu menn muna, gefið fyrirtækjum kolkrabbans og smokkfisksins góðan aðgang að fé og stuðlað að veldi þeirra. Þess vegna er freistandi að varðveita mjólkurkúna eins og hún er.

Krafan um einkavæðingu kemur aðallega frá þeim, sem telja, að hagfræðileg lögmál eigi að gilda í þessu landi eins og í öðrum vestrænum löndum. Þeir telja hagkvæmt, að ríkið dragi úr umsvifum sínum og að harðari rekstrarsjónarmið úr einkageiranum ráði ferðinni.

Ráðamenn ríkisstjórnarinnar efast hins vegar um, að Ísland eigi að vera eins og önnur lönd. Forsætisráðherra er til dæmis mjög andvígur aðild að Evrópusambandinu. Einnig er opinber forsjárhyggja yfirgnæfandi þáttur í vinnubrögðum og viðhorfum flestra ráðherranna.

Ríkisstjórnin mun ekki hraða einkavæðingu bankanna. Hún mun á kjörtímabilinu fara með löndum og dunda við að breyta bönkunum í hlutafélög, af því að hún telur sig þannig vera að vinna í framangreindu ákvæði stjórnarsáttmálans án þess að gera það.

Eðlilegt er, að hlutafélagaskrefið valdi nokkrum titringi meðal valdamanna í helmingaskiptaflokkunum. Sumir flokksbroddar þiggja völd sín frá kjósendum og af setu í bankaráðum og kæra sig ekki um að víkja fyrir flokksbræðrum úr einkageiranum, en óttast, að svo verði.

Og það er alveg rétt. Með breytingu bankanna í hlutafélög verður lögð meiri áherzla á að fá í bankaráðin flokksholl gæludýr úr kolkrabba og smokkfiski, af því að þau verða talin hafa meira vit á viðskiptum og rekstri heldur en þeir, sem aldir eru upp í stjórnmálunum.

Deilan um breytingu ríkisbankanna í hlutafélög er því fyrst og fremst ágreiningur eða áherzlumunur milli hagsmunaaðila innan ríkjandi valdakerfis. Minna máli skiptir, að þjóðarhagur hefur líklega gott af, að harðari rekstrar- og útlánavenjur verði teknar upp í bankakerfinu.

Bankarnir eru þungur baggi á þjóðinni. Þeir hafa lánað svo bjánalega, að þeir þurfa að skattleggja núverandi viðskiptamenn um milljarða króna á hverju ári til að borga tapið af óforsvaranlegum útlánum. Þessi lán hafa einkum runnið til pólitískra gæludýra af ýmsu tagi.

Einkavæðing ríkisbankanna mun laga stöðuna, en miklu gagnlegra væri þó, ef erlendir alvörubankar vildu setja hér upp útibú til að keppa við þá um markaðinn.

Jónas Kristjánsson

DV