Hagsmunir í hafi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að öryggishagsmunir Bandaríkjanna og Íslands stangist á í auknum mæli, því að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að gera hafið að helzta gereyðingarvopnabúri sínu til þess að halda sérstöðu sinni sem sjóveldi heimsins, þegar öðrum vopnum fækkar.

Gagnkvæmar tilkynningar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um einhliða samdrátt í viðbúnaði eru að mestu á sviðum, þar sem einhvers konar gagnkvæmni verður komið við, þótt allt séu þetta kallaðar einhliða aðgerðir. Þetta er afleitt fyrir þá, sem vilja hreinsa hafið.

Ísland hefur mikla hagsmuni af því, að höfin verði ekki helzta hættusvæðið, ef til átaka kemur. Það magnar líkur á, að eyja á siglingaleiðum herskipa og kafbáta verði skotmark eða nálægt skotmarki í hugsanlegum átökum, sem geta jafnvel orðið fyrir misskilning.

Við þessa hættu bætist svo mengunarhættan, sem fylgir kjarnorkuknúnum og kjarnorkubúnum herskipum og kafbátum. Alvarlegt slys getur haft víðtæk og varanleg áhrif á lífríki hafsins og síðan hliðstæð áhrif á útflutningstekjur og efnahag þjóðarinnar.

Mikilvægt er, að forsætisráðherrar hvers tíma og aðrir valdamenn þjóðarinnar leggi jafnan mikla áherzlu á þessa hagsmuni Íslendinga, þegar þeir hitta Bandaríkjaforseta eða aðra bandaríska valdamenn, en eyði ekki of miklum tíma í hliðarmál á borð við hvalinn.

Þótt hafið hafi að mestu orðið útundan í yfirlýsingum síðustu daga um samdrátt geryðingarvopna og hefðbundins herbúnaðar, hefur Ísland eins og önnur lönd hag af minni spennu og minni viðbúnaði, sem dregur auðvitað úr líkum á, að atómstríð verði fyrir slysni.

Enn meira máli skiptir fyrir Ísland, að hjaðni hin hefðbundna spenna í gagnkvæmum viðbúnaði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þótt annars konar hætta leysi af hólmi þá hættu, sem fylgir hinni hefðbundnu spennu, kemur hún ekki eins mikið við okkur.

Svo virðist sem minni hætta sé á skipulögðu atómstríði heimsvelda, en meiri hætta á, að skjótráðir smákóngar beiti slíkum vopnum í hryðjuverkastíl. Nægir þar að minna á Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, sem hefur reynt af alefli að ná sér í slík vopn.

Bandaríkjastjórn hefur líka áhyggjur af, að óhjákvæmileg sundrun Sovétríkjanna leiði til, að sovézk kjarnorkuvopn falli í hendur meira eða minna óútreiknanlegra þjóðernissinna eða einræðisherra í einstökum ríkjum, sem myndast kunna úr rústum Sovétríkjanna.

Ólíklegt er, að Saddamar Husseinar heimsins beini sjónum sínum að Íslandi, ef þeir hafa hryðjuverk í huga. Þeir munu telja önnur skotmörk hafa meira auglýsinga- eða ógnargildi. Þess vegna snertir hin nýja smákóngahætta okkur minna en sumar aðrar þjóðir.

Þar sem yfirlýsing Bandaríkjaforseta dregur úr hættu á skipulögðu atómstríði, er hún gagnleg okkur eins og mannkyninu yfirleitt. Sama má segja um viðbrögð sovézka varnarmálaráðuneytisins um nærri helmings minnkun heraflans og um miðstýringu hans í Moskvu.

Á aðeins einni viku hefur jörðin orðið mun öruggari dvalarstaður mannkyns. Frumkvæðið kom frá Bandaríkjastjórn og var vel svarað af hálfu Sovétstjórnarinnar. Við getum fagnað frumkvæðinu, þótt hafið hafi orðið að mestu útundan í þessum áformum um samdrátt.

Þetta þýðir líka, að við verðum að efla áherzlur okkar gegn stríðs- og mengunarhættu í hafinu, þótt hagsmunir okkar séu þar aðrir en sjóveldis Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV