Hagsmunir og hugsjónir

Greinar

Þegar umboðsmenn stjórnarflokkanna réðu Sverri Hermannsson sem Landsbankastjóra, voru þeir að staðfesta þann megintilgang íslenzkra stjórnmálaflokka að gæta hagsmuna. Í þessu tilviki var verið að varðveita pólitískan forgang að takmörkuðu lánsfé bankanna.

Hér í blaðinu hefur mjög oft verið bent á einstaka þætti þessa hefðbundna verkefnis stjórnmálaflokka hér á landi, til dæmis á landbúnaðinn, sem fær að herfangi sex milljarða árlega af peningum skattborgaranna. En ekkert lát hefur verið sjáanlegt á hagsmunagæzlunni.

Hin síðari ár hefur stundum verið reynt að fara með löndum við þessa iðju, til dæmis með því að velja tiltölulega hæfa fagmenn sem flokksbankastjóra. Ráðning Sverris er hins vegar óvenju ósvífin yfirlýsing um, að hæfni verður áfram algert aukaatriði í hagsmunagæzlu.

Aðgangur að fjármagni getur orðið sérstaklega mikilvægur á næstu árum, ef ríkisstjórnin fer að óskum Steingríms Hermannssonar, heykist á raunvöxtum og lætur sparendur aftur fara að niðurgreiða vexti í þágu gæludýra, sem komast gegnum pólitíska nálaraugað.

Í sundrungu stjórnarflokkanna síðustu vikur á þingi hefur greinilega komið fram, að ágreiningsefnin varða oftast staðbundna hagsmuni. Einstakir stjórnarþingmenn hafa gert uppsteyt og jafnvel svikið lit í atkvæðagreiðslum til þess að sýna dugnað við hagsmunagæzlu.

Þetta hefur meðal annars komið fram í umræðu um fiskkvóta og lánsfjárlög á síðustu vikum. Vald ríkisins til að deila og drottna er orðið svo flókið og víðfeðmt, að margir telja sér arðbærast að spila í kerfinu. Þingmenn koma svo fram sem umboðsmenn spilafólksins.

Hinir andstæðu hagsmunir leiða oft til pattstöðu, sem gjarnan er leyst með setningunni “ráðherra er heimilt” í lögunum, er Alþingi setur. Fiskveiðikvótalögin nýju eru skýrasta og grófasta dæmið um framleiðslu og afsal á pólitísku og peningalegu valdi í hendur ráðherra.

Alþingi framleiðir vald með því að setja lög um alla skapaða hluti og ákveða þar í smáatriðum, hvernig þeim skuli hagað. Þar með keyrir það þjóðlífið í spennitreyju, sem hagsmunapólitík stjórnar. Síðan afhendir það ráðherrum óhófsvaldið með heimildarákvæðum í lögum.

Athyglisvert er, hversu lítið fjölmiðlar gera að því að segja fólki frá þessum raunverulega gangi mála í stjórnmálunum. Einkum er eftirtektarvert, hversu höfðingjahollar eru fréttastofur sjónvarpsstöðvanna, sem halda stíft í ráðherrarófuna og beita ráðherraklisjunum.

Til dæmis var sífellt fjallað um svokallað málþóf stjórnarandstöðunnar í afgreiðslulotu Alþingis um jól og nýár. Samt áttu stjórnarþingmenn verulegan þátt í umræðunum. Og þær gátu ekki talizt málþóf, því að málin voru greinilega illa unnin af ráðherra hálfu.

Þótt margt megi út á stjórnmálamenn setja, er ekki hægt að gagnrýna, að þeir leyfi sér að taka tíma til að ræða tillögur um stórfelldar breytingar á högum þjóðarinnar, sem koma í skæðadrífu frá framkvæmdavaldinu. Afar hlutdrægt er að segja slíka umræðu vera málþóf.

Hitt er lakara, að áberandi mikill hluti umræðunnar um jól og áramót endurspeglaði það, sem hér hefur verið sagt um markmið flokkanna, og staðfesti, að flestir stjórnmálamenn á þingi líta ekki á sig sem umboðsmenn hugmynda eða hugsjóna, heldur hagsmuna.

Ráðning nýs Landsbankastjóra má gjarna minna kjósendur á, að enn eru flokkarnir í sífellu að bregðast trúnaði við þjóðina í heild ­ í þágu sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV