Hagstætt og hættulegt

Greinar

Hættulegt er fyrir fólk að taka íbúðalán í erlendri mynt. Þeir, sem hafa launatekjur í krónum eiga að taka lán í krónum. Allt öðru máli gegnir um fyrirtæki, sem hafa tekjur í erlendri mynt. Þau eiga að taka sín lán í erlendri mynt í sama mæli og tekjur þeirra. Þannig jafna þau áhættu sína.

Gengi krónunnar og gengi annarra mynta breytist. Oft valda þessu aðstæður í umheiminum, sem ekki voru fyrirsjáanlegar, þegar lánið var upphaflega tekið. Sem dæmi má nefna dollarann, sem hefur lækkað ört á undanförnum misserum vegna breyttrar stefnu ríkisfjármála, um 16% á síðasta ári.

Þegar launamenn taka íbúðalán í erlendri mynt, eru þeir farnir að spekúlera í of stórum stíl til of langs tíma. Spurning er, hvort þeir hafi allir næga þekkingu til að braska þannig með fjöregg sitt. Fólk getur hæglega orðið gjaldþrota, ef dollari hækkar snöggt í fyrra verðgildi.

Hins vegar er ánægjulegt, að íbúðalán eru að hækka og vextir þeirra að lækka. Það stafar auðvitað af aukinni samkeppni á markaði lánastofnana. Bankarnir eru farnir að seilast inn á verksvið Íbúðalánasjóðs og valda titringi, sem leiðir til lægri vaxta og greiðari aðgangs að hærri fjárhæðum en áður.

Málin þróast ört í átt að því eðlilega ástandi, að fólk geti á einum stað fengið um 100% lán á um það bil 4% vöxtum og tekið á sig 5.000 króna greiðslubyrði á mánuði á hverja milljón. Þá verður greiðslubyrði fólks af 15 milljón króna íbúðaláni komið niður í 75.000 krónur á mánuði í 25 ár.

Þetta er í samræmi við ástandið í kringum okkur. Þar þarf fólk ekki að hafa neitt handbært fé til íbúðakaupa, ef það getur sýnt fram á fastar tekjur. Þar þarf ríkið ekki að niðurgreiða vexti, af því að þar eru 4% vextir eðlilegir. Hærri vextir hafa lengi verið séríslenzkt fyrirbæri.

Breytingar á íbúðalánum eru angi af aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu og gegnum hana af óbeinni aðild okkar að hnattvæðingunni. Stjórnvöld eiga erfiðara með að halda uppi séríslenzkum vandamálum og verða í auknum mæli að haga sér eins og þykir vera sjálfsagt í viðskiptalöndum okkar.

Frjálsari fjármagnsstraumar hnattvæðingarinnar eru bæði hagstæðir og hættulegir. Í húsnæðiskaupum eru þeir almenningi hagstæðir, af því að þeir munu fyrr eða síðar gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið á hóflegum vöxtum án þess að þurfa að vera á tauginni árum saman.

En frelsið er líka hættulegt þeim, sem ekki hafa þekkingu eða aðstöðu til að átta sig á, hvernig gengi mynta muni breytast á næstunni. Þeir ættu að halda sig við krónuna.

Jónas Kristjánsson

DV