Hagsýni heimilanna

Greinar

Þúsundkallarnir fjúka fyrir lítið í föstudagsinnkaupum sumra heimila, ef dæma má af því, sem fólk hefur í vörukerrum sínum við kassana í matvöruverzlunum. Svipaða vangá má sjá á götunum af nýkeyptum bílum af bilanagjörnum og endingarlitlum tegundum.

Samanlögð endurspeglast eyðslan í rúmlega 400 milljarða skuldum heimilanna, sem hafa aukizt um rúma 40 milljarða frá sama tíma í fyrra. Þetta þýðir, að fólk hefur ekki bara lagt út sem nemur allri 8% kaupmáttaraukningunni, heldur 12% skuldasöfnun að auki.

Meðan þjóðfélagið verður flóknara með hverju árinu, hefur þekking og kunnátta almennings í viðskiptum aukizt hægar en þekking og kunnátta í sölumennsku og markaðssetningu. Í sumum tilvikum er farið með neytendur eins og viljalaus reköld innkaupafíkla.

Þeir, sem minnst mega sín í lífinu, sýna oft minnsta aðgæzlu í umgengni sinni við peninga. Þeir hafa ekki frekar en aðrir hlotið neina neytendafræðslu í skólum og nýta sér síður en aðrir gagnlegar upplýsingar, sem birtast á neytenda- og viðskiptasíðum dagblaðanna.

Þeir, sem lengi hafa fylgzt vel með slíkum fréttum, vita, að mikla kaupmáttaraukningu má hafa af aðgát í viðskiptum. Lesendur bílasíðna DV vita til dæmis margir hverjir, að rannsóknir sýna, að bílategundir endast mismunandi lengi og bila mismunandi mikið.

Lesendur DV og forvera þess hafa áratugum saman haft aðgang að neytendasíðum, þar sem gerður er samanburður á verði og gæðum og fjallað um margvíslega aðra hagsmuni neytenda. Frá upphafi hefur þetta efni verið einn meginstólpanna í sérstöðu DV.

Hingað til hafa neytendasíður mest fjallað um matvæli, aðrar heimilisvörur og -þjónustu, en minna um kaup og rekstur á eignum, svo sem húsnæði og bílum og minnst um verðmæta pappíra af ýmsu tagi, sem gegna vaxandi hlutverki í fjármálum alls almennings.

Á þessu verður breyting í dag. Til viðbótar við neytendasíður, sem birtast hversdagslega í blaðinu, verður á fimmtudögum fjögurra síðna samfelldur efnisflokkur, þar sem fjallað er um tilboðsverð, um mat og heimilisvörur, um fastar og lausar eignir og um pappíra.

Verðkannanir verða þungamiðjan, verðkannanir á einstökum vörum og vöruflokkum, þjónustu og þjónustuflokkum. Við berum saman seljendur og förum stundum út fyrir landsteinana af því tilefni. Með gæðakönnunum fyllum við svo myndina enn betur.

Í dag er verðkönnun á gemsum. Einnig er fjallað um innkaupavenjur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og benzínsparnað Þórarins Sigþórssonar tannlæknis. Ennfremur um misjöfn áhrif kreppunnar í Austurlöndum á eign fólks í ýmsum verðbréfasjóðum.

Svo að upplýsingarnar komist sem bezt til skila, er efnið gert myndrænt. Þannig viljum við stuðla betur en áður að því gamla hlutverki DV að auðvelda lesendum sínum lífsbaráttuna og hjálpa þeim við að taka betri og yfirvegaðri þátt í lífskjarabyltingu nútímans.

Við reiknum með, að þetta leiði ekki aðeins til bætts fjárhags þeirra, sem notfæra sér efnið, heldur hafi líka þau óbeinu áhrif, að auglýsingar og önnur markaðssetning verði fólki gagnlegri með því að gera meira en áður ráð fyrir, að neytendur séu viti borið fólk.

Nútíminn færir okkur auknar flækjur og aukin tækifæri. Með þekkingunni öðlumst við betri tækifæri til að gera það, sem okkur langar til að gera.

Jónas Kristjánsson

DV