Hákarlar í grasrótinni

Greinar

Hætt er við, að grasrótin í Símamálinu mengist af auðugum fjárfestum, sem vilja leggja fram tugi eða hundruð milljóna í hlutabréfum hennar til að hafa meiri áhrif en almenningur. Einhverjir bjóði jafnvel milljarða til að kaupa sér sæti í stjórn hlutafélags grasrótar Agnesar Bragadóttur.

Styrkur grasrótarinnar felst í að vera grasrótin. Hann felst ekki í að vera tæki lukkuriddara til að leysa af hólmi einkavini, sem áttu að eignast Símann, einn helzta innvið þjóðfélagsins, í flóknu yfirtökukerfi, sem samið var til að tryggja stöðu gæludýra í kolkrabbanum og smokkfiskinum.

Vantraust á ríkisstjórninni og þingflokkum hennar er orðið svo djúpstætt í þjóðfélaginu, að menn trúa alls ekki aðferð hennar við að selja Símann. Þótt menn sjái ekki svindl á yfirborðinu, eru þeir sannfærðir um, að brögð séu í tafli undir niðri. Þess vegna komst hreyfing á grasrótina.

Grasrótin komst á hreyfingu í Símamálinu, af því að fólkið í landinu treystir ekki ríkisstjórninni og telur hana vera að hagræða málum til að tryggja, að einkavinir og gæludýr hennar fái feita bita í sölunni. Gegn því dugar ekki að raða upp öðrum hópi, þar sem á oddinum eru hákarlar í fjármálum.

Ef grasrótin verður smám saman yfirtekin af hákörlum, mun hún hjaðna. Fólk leggur ekki milljón krónur í ævintýri til að hjálpa nokkrum hópum hákarla til að leysa aðra hópa hákarla af hólmi. Þess vegna verður að setja hámark á fjárhæðir, sem einstakir aðilar geta skráð sig fyrir.

Skynsamlegt er fyrir hóp Agnesar Bragadóttur að setja mörk, til dæmis að hlutafjárloforð megi nema frá einni upp í tíu milljónir króna á hvern aðila. Þá er tryggt, að félagið verði myndað af þúsundum jafningja, þar sem sérhver sé fullgildur málsaðili, en ekki bara smáfiskur í hákarlasjó.

Síðan er mikilvægt, að stjórnarmenn og talsmenn hópsins verði valinkunnir einstaklingar, sem njóta trausts, ekki lífeyrissjóðir og verðbréfabraskarar fjármálaheimsins. Grasrótin vill ekki verða verkfæri í höndum slíkra. Hún vill geta starfað á meira eða minna félagslegum grunni.

Ef hópnum tekst að halda vel á málum, felur hann í sér tímamót. Almenningur hefur þá sagt við svindlarana og hrokagikkina, sem ráða landinu: Hingað og ekki lengra. Valdhafarnir geta ekki sagt nei við grasrót, sem hefur fé, en hagar sér samt eins og grasrót, ekki eins og hákarl.

Framganga Agnesar hefur framkallað sprengingu með óljósum afleiðingum. Miklu máli skiptir, að vandað verði til verka í grasrótinni, svo að eðli sprengingarinnar breytist ekki.

Jónas Kristjánsson

DV