Nokkrir hestamenn segja í þessu tölublaði Eiðfaxa frá hughrifum sínum í hestaferðum um landið, einkum um ósnortin víðerni þess. Þeir segja frá sérstakri stemmningu, sem fylgir rekstri lausra hrossa frá einum áningarstað í annan. Þeir lýsa náttúru, hestum og samferðafólki.
Þegar hross hafa jafnað ágreining um stöðu sína í rekstri og eru farin að liðast um í fallegri lest, hvert á fætur öðru, slaknar á hrossum og mönnum. Þá gefst gott færi á að drekka í sig umhverfið og lifa sig inn í hinn sérstæða heim hestaferðanna.
Hross og að minnsta kosti sumir menn hafa fengið flökkueðli í arf frá löngu liðnum forfeðrum einhvers staðar á meginlandi Evrópu. Það snertir frumstæða taug í sál þeirra að taka sig upp á hverjum morgni og stefna til náttstaðar í nýjum haga við nýtt vatnsból.
Flestum hestum líður hvergi betur en í hestaferðum, þar sem rekið er, en ekki teymt. Þá sýna þeir beztu hliðar sínar. Gamlir klárar yngjast upp og gefa bakið eftir á töltinu. Víðidalsgutlarar verða að fjallagæðingum á öðrum eða þriðja degi.
Eins er það með fólkið. Við breytumst, verðum hjálpsöm og förum að hugsa sameiginlega eins og ein heild, skiptumst á um að halda í spotta og skipta um hest. Við erum frumhópurinn, einn í heiminum, oftast í ægifögru umhverfi.
Þeir, sem fá bakteríuna, losna ekki við hana. Meðan heilsan leyfir fara þeir á hverju sumri í að minnsta kosti eina langferð með lausa hesta um víðáttur landsins. Sumir viðmælendur blaðsins hafa farið slíkar ferðir á hverju sumri áratugum saman.
Svipað er að segja um marga, sem koma hingað í skipulagðar hestaferðir hjá fyrirtækjum eða bændum. Þeir koma aftur og aftur. Hrifningu þeirra má sjá nokkrum sinnum á hverju ári í greinum, sem skrifuð eru í blöð Íslandshestafólks í öðrum löndum.
Kjölur er alltaf vinsæll, enda eru skálar á þeirri leið orðnir góðir. Fjallabaksleið er ekki síður mikið farin, einkum syðri leiðin. Löngufjörur á Snæfellsnesi eru þriðja draumaleið hestamanna. Hreppaafréttir og Arnarvatnsheiði eru einnig ofarlega á óskalistanum, svo og Vestur-Skaftafellssýsla nánast eins og hún leggur sig frá fjörum til fjalla.
Bjarni Eiríkur Sigurðsson segir hér í blaðinu: “Það er lyktin af hestunum og úr jörðinni, þú ríður yfir mosaþembur með annarri lykt en valllendi. Þú fylgist með öllu, fuglum og náttúrunni kringum þig, teygir þig eftir eyrarrós.”
Og Einar Bollason klykkir út: “Mér finnst ég komast á annað tilverustig í hestaferðum, í eins konar algleymi.”
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 6.tbl. 2003