Hálf þjóðin hólpin

Punktar

Þaulsetur á matarhúsum gera mér kleift að upplýsa, að hruninu er lokið. Að vísu bara fyrir hálfa þjóðina. Hinn helmingurinn á ekki þátt í góðærinu, sjúklingar, aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk. Enda telur ríkisstjórnin aumingja ekki vera þjóðina. En semsagt hinn heppni helmingur er farinn að flykkjast á veitingahús, einkum í hádeginu. Gerðist snögglega núna um mánaðamótin. Flestir góðir staðir, sem árum saman voru hálftómir í hádegi, eru þéttsetnir, þar af 80% heimafólk. Þjóðin, sú sem telur, hefur tekið gleði sína. Nú vantar pólitík, sem lyftir hinum helmingi upp í mannsæmandi kjör. Til þess höfum við nóg af auðlindum í túrisma, fiski og orku, en höfum vanrækt að innheimta auðlindarentu. Það er næsta skref. En fyrst þarf að sparka bófaflokkunum.