Halim Al er ekki Tyrkland

Greinar

Trúarofstæki í Tyrklandi kemur Íslendingum einkennilega fyrir sjónir. Okkar kristni er afar umburðarlynd og frjálslynd og fer eftir siðareglum vestræns þjóðskipulags. Svo er ekki um alla kristni eins og við sjáum af deilum kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi.

Það er skammur vegur frá mótmælatrúarklerkinum Ian Paisly í Belfast til æpandi trúarlýðs fyrir utan dómhús í Istanbul. Hvorir tveggja ákalla guð sinn í mynd gamla testamentisins og biðja um ill örlög vantrúarhunda. Hefðbundnar siðareglur koma þar hvergi nærri.

Ofsatrúarmenn skeyta því engu, þótt þeirra maður hafi brotið lög með því að ræna börnum. Þeir telja höfuðatriði málsins vera, að þeirra maður sé rétttrúaður, en hinn íslenzki mótaðili sé vantrúarhundur. Og þeir hafa hingað til náð sínu fram með frekju og yfirgangi.

Ekki má dæma Tyrkland í heild eftir framferði og árangri minnihlutahóps. Tyrkland er mjög flókið fyrirbæri á mörkum hins vestræna og hins íslamska heims, á mörkum nútíma og miðalda. Þar togast á miklu fjölbreyttari þjóðfélagsöfl en við þekkjum hér á landi.

Tyrkland er arftaki heimsveldis, sem var grísk-kristið fyrir rúmlega fimm öldum og íslamskt fyrir tæpri öld. Þar voru engar vestrænar lýðræðishefðir, þegar soldáninum var rutt úr vegi fyrir sjö áratugum. Menn höfðu mann fram af manni verið þegnar, ekki borgarar.

Með handafli var reynt að gera Tyrki vestræna. Tekið var upp latneskt stafróf, skilið milli ríkis og kirkju, mönnum bannað að ganga með fez á höfði, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Komið var á fót vestrænum lýðræðisstofnunum samkvæmt vestrænni stjórnarskrá.

Í stórum dráttum hefur þetta tekizt vonum framar. Tyrkir kjósa í lýðræðislegum kosningum og stjórnmálaflokkar skiptast á um að fara með völd. Þeir sækjast eftir aðild að stofnunum Evrópu um leið og þeir telja sig geta verið brú frá framförum vesturs til íslams.

Mannréttindi hafa ekki fylgt nógu vel eftir þessari vestrænu byltingu. Meðferð fólks í fangelsum er sums staðar enn af austrænum toga. Og stjórnvöldum hefur gersamlega mistekizt að gera Kúrda og Armeníumenn að gildum og sáttum borgurum í samfélaginu.

Það er fyrst og fremst vegna hinnar inngrónu andstöðu við innleiðingu vestrænna mannréttinda, að Tyrkland hefur ekki verið viðurkennt í evrópsku samfélagi. Atburðir í barnsránsmáli Halims Als eru ekki til þess fallnir að fá Evrópu til að telja Tyrkland vera evrópskt.

Ekki er öll nótt úti í barnsránsmálinu, þótt einstakur héraðsdómari í Istanbul brjóti lög og stjórnarskrá til að dæma trúarofsafólki í hag. Hæstiréttur Tyrklands í Ankara hefur miklu betra orð á sér og reynir miklu frekar að fara eftir hinum vestræna bókstaf laganna.

Ástæða er líka til að taka eftir, að öll útbreiddustu dagblöðin í Tyrklandi hafa sagt satt og rétt frá máli þessu og að margir einstaklingar hafa lagt lykkju á leið sína til að styðja þann málstað, sem fluttur var af íslenzkri hálfu í máli barnaræningjans Halims Als.

Flestir Tyrkir eru eins og fólk er flest. Þeir eru þægilegir í samskiptum og koma vel fram við útlendinga. Skammbyssugengið umhverfis barnaræningjann er ekki dæmigert fyrir Tyrki. Það er bara dæmi um að lýðræðisbylting með handafli skilar ekki fullum árangri.

Trúarofstæki er hins vegar eitt versta fyrirbæri mannkyns. Það einkennir ekki Tyrki og það er til víðar en í löndum íslams, þar á meðal miklu nær okkur.

Jónas Kristjánsson

DV