Úti í eyðimörkinni
Inni af hinni mjög svo ódýru Veitingahöll í Húsi verzlunarinnar er hægt að ganga inn í hinn fínni Hallargarð. Þar í gættinni verður snögg hækkun á matarverði og nokkru minni bati á matargæðum. Mismunurinn gæti stafað af, að erfitt er að magna gæði, þegar deila þarf eldhúsi með ódýrum stað.
Enda hefur Hallargarðurinn ekki enn slegið í gegn í hinni hörðu samkeppni veitingahúsa á fínni kantinum. Þar er oftast fámennt. En það kann að lagast, þegar miðbærinn í Kringlumýri byggist upp. Enn er staðurinn eins og úti í eyðimörkinni. Hann er góður fyrir þá, sem sækjast eftir friði og ró, auk þess sem maturinn er í mörgum tilvikum ágætur.
Í grundvallaratriðum er sama innrétting í Hallargarðinum og í Veitingahöllinni. Hún fer hins vegar miklu betur í Hallargarðinum. Hinn harði og hreini stíll mildast af gulleitum hörgluggatjöldum, borðdúkum og munnþurrkum, svo og lifandi blómum á borðum. Hérna megin gáttar gengur stíldæmið upp og býr til notalegt andrúmsloft.
Helgi Hjálmarsson arkitekt hefur teiknað staðinn og klætt hann í mildilega leirbrúnt teppi og mildilega leirbrúnt áklæði á þægilegum nútímastólum við nútímaborð; lárétta og ljósa viðarklæðingu á neðanverðum veggjum; hinar mjög svo stóru og áberandi glerkúlu-ljósakrónur og loks spegla-skúlptúr eftir Leif Breiðfjörð. Allt er þetta fyrsta flokks.
Þjónusta í Hallargarðinum var góð í tvö skipti af þremur. Í einu tilvikinu vissi þjónninn lítið og ætlaði aldrei að ná niður pöntuninni. Í öðru tilvikinu vissi þjónninn nákvæmlega, hver hafði pantað hvaða rétt, eins og raunar ætti að vera reglan í öllum dýrum veitingahúsum. Í þriðja tilvikinu náði þjónninn ekki þessu atriði, en stóð sig að öðru leyti vel.
Sjávarréttir á fimmtudögum
Í hádeginu er boðið upp á súpu og þrjá rétti dagsins. Á fimmtudagskvöldin er sérstakur sjávarréttaseðill. Að öðru leyti gildir fastur matseðill, sem leggur meiri áherzlu á sjávarrétti en kjötrétti. Sjávarréttaseðillinn er á svipuðu verði og fasti seðillinn, en hins vegar er hádegisseðillinn töluvert ódýrari.
Seljurótarstönglasúpa dagsins kom mjög heit á borð. Stönglarnir voru ekki ofsoðnir og súpan sjálf var hressandi. Þetta var góð súpa. með henni og öðrum súpum fylgdi kalt osta-snittubrauð.
Fiskisúpa verzlunarmannsins á fasta- og fiskiseðli var hin bezta súpa, tær, en fullmikið pipruð. Í henni voru úthafsrækjur, silungur, hörpufiskur, dósasveppir, steinselja, gúrkubitar, en mest þó af fyrirtaksgóðum skötusel.
Rjómalöguð skelfiskasúpa var líka góð. Hún var einföld, fólst í brúnu humarsoði með rækjum og hörpufiski.
Aða dagsins var bökuð með steinseljusmjöri í skel. Fiskurinn var meyr og góður, en vöðvinn seigur og grófur. Betra hefði verið að skilja hann frá. Aða er mun stærri en kræklingur og þeim mun meiri matur, þótt vöðvanum sé sleppt. Annars er aða sjaldgæf á borðum, því að hún liggur dýpra en kræklingur og næst því ekki úr landi á fjöru. Hún er því skemmtileg tilbreyting.
Grafin ýsa á sjávarréttaseðli var örlítið of sölt, en að öðru leyti í fínasta lagi. Hún var borin fram með köldum spergli, gúrku, ristuðu brauði með smjöri og hversdagslegri sinnepseggjasósu, blandaðri sólselju.
Pönnusteikt smálúðuflök dagsins með lauki og dósasveppum, svo og hvítum kartöflum, sítrónu og tómati, en án hrásalats, voru góð, hæfilega elduð og vel heit.
Saffrankryddaður skötuselur af fastaseðli var dálítið þurr, en þó ekki til skaða, og minnti raunar á humar. með honum var laukur, dósasveppir, hrísgrjónakrókettur og gífurlega rjómuð, mild humarsósa, en ekki hrásalat.
Nautahryggsneiðar “tíu plús tíu” á sjávarréttaseðlinum (!) voru þrjár þunnar, snarpheitar sneiðar, hæfilega eldaðar í tíu sekúndur á hvora hlið, úr góðu hráefni og báru með sér þægilegan vott af grillbragði. Með þeim var brokkál, bökuð kartafla og fín, grænmetisblönduð sveppasósa, svo og hrásalat.
Góður lax og slakur lax
Tilboð dagsins var soðinn Hvítárlax með soðnum kartöflum, tómati, sítrónu og sýrðum gúrkum. Beðið var um hann sérlega vægt eldaðan, en hann kom eigi að síður allt of þurr á borð. Ég á betri minningar um “laxafiðrildi” af fastaseðlinum, sem ég hafði áður fengið og þá nægilega fínlega eldað til að haldast meyrt og ljúft.
Eftirréttir Hallargarðsins virtust samkvæmt matseðlum ekki vera sérlega spennandi, svo að þeir voru ekki prófaðir. Ís og skyr getum við borðað heima.
Miðjuverð súpa af fastaseðli er 138 krónur, forrétta 172 krónur, fiskrétta 365 krónur, kjötrétta 440 krónur og eftirrétta 120 krónur. Kaffi er á 45 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli með hálfflösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta 852 krónur. Svipað kemur út úr fiskréttaseðlinum.
Í hádeginu hins vegar ætti súpa og miðrétturinn af þremur réttum dagsins að kosta 235 krónur. Það eru raunar beztu kaupin í Hallargarðinum. Í prófuninni var það seljurótarstönglasúpan og pönnusteiktur smálúðuflökin, sem lýst var hér að ofan.
Jónas Kristjánsson
“Miðjuverð”
P.S. Komið hefur í ljós á prenti, að fyrrverandi veitingamaður Kvosarinnar skilur ekki hugtakið “miðjuverð”. Það er afsakanlegt. Öðrum til fróðleiks skal tekið fram, að þetta er sama stærðfræðihugtak og heitir “median” á ensku. Þar sem ofanritaður hefur gott próf í þeim fræðum, er fyrrverandi veitingamanni Kvosarinnar alveg óhætt að treysta því, að verð eru rétt reiknuð í þáttum þessum og að hans lélega veitingahús var hið dýrasta hér á landi, hvað sem gerist undir nýrri stjórn.
-En fyrir hann gæti verið fróðlegt að vita, að púrtvínssveppir eru ekki búnir til úr púrtvíni, frekar en að brennivínshákarl er búinn til úr brennivíni og hundamatur búinn til úr hundum.
Jónas Kristjánsson
DV