Halldór selur ekki flokkinn

Greinar

Sukkið er eitt helzta einkenni Halldórs Ásgrímssonar sem ráðherra, fyrst utanríkisráðherra og síðan forsætisráðherra. Frægasta dæmið um það eru sendiráð og sendiherrastöður, sem hann hefur stofnað til úti um allar trissur, meðal annars til að stuðla að því gæluverkefni að komast í Öryggisráðið.

Sennilega er ekki auðvelt að ætlast til skilnings á verði peninga hjá ráðherra, sem hagnaðist um tugi milljóna á að láta ríkið gefa sægreifunum kvótann, og um aðra tugi á því að framleiða ofureftirlaun fyrir ráðherra. Slíkur maður getur alls ekki höndlað peninga eins og hagsýn húsmóðir.

Enginn ráðherra hefur aukið útgjöld á sínum vegum eins mikið og Halldór Ásgrímsson. Hann telur, að ríkið hafi peninga eins og skít. Það geti verið með flottræfilshátt á borð við ógrynni sendiráða og sendiherra og á borð við ógnarmikil eftirlaun fyrir ráðherra, innan um eymd fátæklinganna.

Leyndin er annað helzta einkenni Halldórs Ásgrímssonar sem ráðherra. Saman ákváðu þeir Davíð að fara í stríð gegn Afganistan og Írak án þess að leita ráða hjá kóngi eða presti. Á sama tíma tefldu þeir viðræðum um varnarliðið út í mýri, svo að nú er ekki sjáanlegur neinn botn í því máli.

Sukkið og leyndin einkenna ráðherra, sem hafa verið svo lengi við völd, að þeir eru orðnir veruleikafirrtir. Enginn er lengur til, sem getur náð eyra Halldórs, sem getur sagt honum sannleikann um umhverfið. Um langt skeið hafa dansað um hann hirðmenn, sem byrgja honum sýn til almennings.

Hundalógíkin er þriðja einkenni Halldórs Ásgrímssonar. Þegar hann er kominn út í horn grípur hann til fýlulegra kenninga á borð við, að nauðsynlegt sé að sýna Mósambík virðingu með því að hafa þar sendiráð og senda þangað ráðherra. Allt viti borið fólk sér, að hvort tveggja er rándýr firring hans.

Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið í vondum málum og mælist ekki með frambærilegt fylgi í skoðanakönnunum. Það er sumpart eðlileg þróun í samræmi við hnignun landbúnaðar, því að flokkur, sem hatar þéttbýlið og ofsækir þéttbýlisfólk, getur varla reiknað með miklu fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Að hluta til er fylgisleysi flokksins hins vegar beint tengt við úreltan formann, sem ekki selur flokkinn, ekki frekar en hann getur troðið Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

DV