Norska strandgæzlan tók togarann Sigurð af ásettu ráði. Hún hefur áður ýmist tekið íslenzk skip eða vísað þeim á brott, án þess að standa föstum fótum í alþjóðalögum og milliríkjasamningum. Hún gerir slíkt ekki hvað eftir annað án fyrirskipunar frá stjórnvöldum.
Ef norska strandgæzlan hefði sætt ákúrum vegna fyrri framhleypni sinnar í samskiptum við íslenzk skip, hefði hún farið varlegar að þessu sinni. Það gerði hún ekki. Þess vegna hefur hún ekki sætt ákúrum, heldur starfar nákvæmlega samkvæmt óskum norskra stjórnvalda.
Norska strandgæzlan tók togarann Sigurð á föstudagskvöldi af ásettu ráði. Hún hefur oftast notað helgar til slíkra athafna, svo að ríkiskontórar í Noregi séu lokaðir, þegar íslenzk stjórnvöld taka upp símann til að reyna að komast að raum um, hvað hafi komið fyrir.
Laugardaginn 24. september 1994 voru tveir íslenzkir togarar færðir til hafnar í Noregi. Aðfaranótt sunnudagsins 19. maí 1996 var tveimur íslenzkum fiskiskipum vísað af umdeildum miðum. Og nú var Sigurður tekinn aðfaranótt laugardagsins 7. júní 1997. Þetta er mynztur.
Norska stjórnin tók upp aðferðina, þegar Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra. Hún telur með réttu eða röngu, að bezta ráðið til að halda Íslendingum á mottunni sé að lemja Halldór snöggt og óvænt í skallann. Þetta minnir á samskipti Hitlers og Chamberlains.
Aðferð Hitlers felst í að brjóta fyrra samkomulag að einum hluta og bíða síðan átekta. Viðræður hefjast og leiða til eftirgjafar af hálfu fórnardýrsins. Þá er tekið til við nýtt brot og nýjar viðræður, hring eftir hring. Þannig lak Evrópa inn í síðari heimsstyrjöldina.
Þegar norska stjórnin fer yfir mörkin í yfirgangi gagnvart Íslendingum, byrjar Halldór að tuða að hætti Chamberlains. Greinilegt er, að norskir starfsbræður hans taka hóflegt mark á honum. Þeir telja, að hann muni hopa frá fyrri vígstöðu til að ná sáttum. Hann sé sú týpa.
Norðmenn eru vanir frekjulegri framgöngu í samningum af öllu tagi. Þeir tóku til dæmis fullt mark á Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem lét þá ekki eiga inni hjá sér í óvæntum ruddaskap. Þeir misskilja hins vegar tuðið í Halldóri og telja það vera eins konar veikleikamerki.
Í stað Halldórs vantar okkur eins konar ígildi Churchills, sem alltaf svarar Hitlersaðferðinni af fullri hörku, svo að norsk stjórnvöld telji ekki borga sig lengur að vera með yfirgang í áföngum og setjist heldur af heilindum að samningaborði, sem þau hafa enn ekki gert.
Marklaust er að svara aðgerðum Norðmanna með tuði að hætti Halldórs. Þeim þarf að svara með gagnaðgerðum. Ríkisstjórnin getur strax sagt upp loðnusamningnum við Norðmenn og meinað þeim veiði í fiskveiðilögsögunni, þegar samningurinn rennur út að ári.
Í kjölfar uppsagnarinnar getur ríkisstjórnin beitt landhelgisgæzlunni til að færa norsk loðnuveiðiskip til hafnar til að skoða pappírana og kanna, hvort tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt og hvort rétt séu skráðir veiðistaðir. Það er tungumál, sem Norðmenn skilja.
Engum tilgangi þjónar að túlka aðgerðir norskra stjórnvalda sem aulaskap eins og forsætisráðherra hefur reynt að gera. Þær eru ekki aulaskapur, heldur sértækar aðgerðir til að kúga þá, sem aldrei láta sverfa til stáls, heldur tuða og tuða og tuða í það óendanlega.
Ríkisstjórnin hefur nú tækifæri til að átta sig á raunveruleikanum og breyta framgöngu sinni í samræmi við þá norsku stefnu, sem kom fram í hertöku Sigurðar.
Jónas Kristjánsson
DV