Frá Þórisstöðum í Þorskafirði um Hallsteinsnes til Barms í Djúpafirði.
Deilur og dómsmál hafa risið um lagningu bílvegar um skóginn og fyrir nesið. Ef vegurinn verður lagður, fellur þetta niður sem reiðfær reiðleið.
Hallsteinsnes er víða viði vaxið, einkum í Teigsskógi. Skógurinn hefur á notið góðs af minnkandi beit og umgengni. Frá Teigsskógi liggur leiðin um fjörur, fitjar og sjávartjarnir að Grenitrésnesi. Þar á að hafa á landnámsöld rekið á land svo stórt tré að nægt hafi í öndvegissúlur fyrir marga bæi í nágrenninu. Hallsteinsnes er gamalt höfuðból. Þar bjó Hallsteinn sonur Þórólfs mostrarskeggs. Sonur Hallsteins var Þorsteinn surtur, sem bætti tímatalið með sumarauka.
Förum frá Þórisstöðum suðvestur um Hallsteinsnes og frægan Teigsskóg og svo vestur að Fótbaldri. Síðan norðaustur með ströndinni inn Djúpafjörð að Barmi í Djúpafirði og loks norðaustur og upp í leiðina um Hjallaháls.
14,7 km
Vestfirðir
Nálægar leiðir: Þorskafjarðarheiði, Reykjanes, Gróunes, Kálfárgljúfur, Brekkufjall.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort