ENGAR ALMANNAVARNIR virtust vera í lagi í New Orleans gegn fellibylnum Katrínu. Fólk var skilið eftir á sjúkrahúsum og elliheimilum. Tugþúsundir voru enn í borginni, þegar flóðið kom. Áætlanir um brottflutning voru ekki til eða voru ekki notaðar. Þeir fóru einir, sem gátu bjargað sér sjálfir.
ÞJÓÐVARÐLIÐIÐ GAT EKKI hjálpað, af því að það er í Írak að rækta hatur á Bandaríkjunum. Herinn gat ekki hjálpað, af því að hann er í Írak til að rækta hatur á Bandaríkjunum. Heimsveldið sjálft er bjargarlaust á eigin heimavelli. Vopnaðir hópar þjófa ráðast á sjúkrahús og elliheimili.
FRÁ ÞVÍ AÐ GEORGE W. Bush kom til valda hefur hann skipulega strikað út fjárveitingar til að hindra stórtjón af völdum náttúruhamfara. Þar á meðal strikaði hann út tillögur verkfræðinga hersins. Þess vegna var ekki hægt að efla stíflurnar í tæka tíð og þess vegna brustu þær.
FRÁ ÞVÍ AÐ GEORGE W. Bush kom til valda hefur hann hafnað því, að aukinn útblástur koltvísýrings sé meiriháttar vandi mannkyns. Þess vegna hefur hitastig hækkað og þannig búnar til kjöraðstæður fyrir fellibylji á borð við Katrínu. Allir fræðimenn vissu, hvað mundi gerast, en Bush yppti öxlum.
Í NEW ORLEANS er verri glundroði og óöld en gerist, þegar hliðstæðir atburðir verða í þriðja heiminum. Það stafar af því, að undir niðri er heimsveldið ofvaxið þriðja heims ríki, þar sem andvaraleysi, spilling, fordómar, trúarofstæki og tillitsleysi ráða ríkjum. Uppskeran er eins og sáð var.
LÍKIN FLJÓTA UM borgina. Þjóðvarðliðar sinna þeim ekki, né heldur fólki, sem er hjálparvana. Þeir eru önnum kafnir við að reyna að hindra gripdeildir. 15.000 manns hafa 5 klósett á stóra leikvanginum. Þaðan er skotið á hjálparþyrlur. Svona þriðja heims ástand væri óhugsandi í Evrópu. Eða á Íslandi.
DV