Fyrir tæplega hálfri öld sátu kaupsýslumenn í hádeginu á Grilli, Holti eða Nausti og létu færa sér séreldaðan mat. Sumir voru þar í hverju hádegi. Nú standa þeir í biðröð á Vox til að sækja sér forunnin mat. Í mesta lagi einu sinni í viku. Það eru því ekki kaupsýslumennirnir, sem hafa grætt.
Fyrir tæplega hálfri öld fór venjulegt fólk í skóla eða á sjúkrahús án þess að borga krónu. Úrvalið var að vísu minna en núna, en allir vissu, að þeir fengju beztu þjónustu, sem völ var á. Og unga fólkið var sannfært um, að það fengi góða vinnu að loknu nokkurn veginn sama hverju námi sem var.
Lífið var einfaldara fyrir tæplega hálfri öld. Fólk var bjartsýnt. Það hafði trú á framtíð sína og vissi, að kerfi velferðar mundi hjálpa því, ef illa færi. Veikt fólk fengi sín lyf og sína lækningu án þess að borga neitt. Þannig var velferð fátækrar þjóðar orðin góð fyrir tæpleg hálfri öld.
Síðan hefur gengið á ýmsu, en flest ár hefur verið aukinn hagvöxtur, oft um og yfir 5% á mann á hverju ári, eins og er um þessar mundir. Þjóðin ætti að vera og er raunar orðin margfalt ríkari en hún var, þegar hún var um það bil að skilja við úrelt hagkerfi kreppuára og blessaðs stríðsins.
Þrátt fyrir allan hagvöxtinn í tæplega hálfra öld er velferð þjóðarinnar á undanhaldi. Skólagjöld hafa verið tekin upp og fara sífellt hækkandi. Lyfjagjöld hafa verið tekin upp og fara sífellt hækkandi. Fólk fær tæpast vinnu, þótt það mennti sig. Og fátækir kennarar segjast þurfa áfallahjálp.
Hvað gerðist? Hvert fóru allir peningarnir, sem þjóðin hefur grætt? Af hverju getur fólk ekki lifað góðu lífi á hálfri vinnu? Af hverju þurfa hjón að vera hvort um sig í fullri vinnu úti í bæ? Af hverju er ekkert val í þjóðfélaginu annað en að lúta leiðinlegum atvinnurekendum hálfa vakandi ævina?
Við ættum kannski að spyrja nokkra forsætisráðherra þessarar hálfu aldar, hvað hafi orðið um kerfið. Við vitum þó, að ekki þýðir að spyrja þá tvo síðustu, sem enn eru við völd, því að þeir eru of önnum kafnir við að rústa velferðarkerfið til að gefa svör. Og nú síðast eru þeir að lækka skatta.
Kannski er skýringin sú, að gírugt fólk vilji frekar fá meira fé í vasa en greiða til samfélagsins. Kannanir benda þó til, að fólk sé tilbúið að leggja hærri hluta af mörkum, ef það yrði til að bæta skilgreinda þjónustu. En menn hafa ekki lengur trú á, að þjónustan batni, þótt skattar hækki.
Hvort sem skattalækkunin er góð eða vond, þá vitum við, að hún verður notuð til að skera velferðina enn frekar og færa þjóðina enn lengra frá hamingju og öryggi fyrri áratuga.
Jónas Kristjánsson
DV