Hamlað gegn einokun

Greinar

Hliðstæð voru viðbrögð Landsbankans og Odda við banni Samkeppnisráðs við yfirtöku þessara fyrirtækja á Búnaðarbankanum í fyrra tilvikinu og Steindórsprenti-Gutenberg í hinu síðara. Þetta skaðar okkur, sögðu þeir, af því að við þurfum að keppa við útlönd.

Þau telja sig þurfa að ná meirihlutaaðstöðu á innlendum markaði til að geta mjólkað innlenda markaðinn og náð þar í peninga til að niðurgreiða tilraunir til að komast inn á erlendan markað. Þetta getur verið gott fyrir þau, en er örugglega vont fyrir innlenda neytendur.

Við sjáum mjög gott dæmi um þessa misnotkun einokunaraðstöðu hjá Flugleiðum. Þær nota hana til að niðurgreiða farseðla fyrir útlendinga og ná þannig markaðshlutdeild í flugi yfir Norður-Atlantshaf. Verð á farseðlum útlendinga er mun lægra en verð fyrir Íslendinga.

Í öllum vestrænum löndum eru til stofnanir til að gæta hagsmuna heilbrigðrar samkeppni og gera það í raun. Íslenzka stofnunin hefur hingað til ekki tekið það hlutverk alvarlega og því kom það mörgum á óvart, að hún skyldi stöðva bankasameiningu ríkisstjórnarinnar.

Umhverfisráðherra hefði ekki verið í vandræðum með viðbrögðin. Við skulum leggja niður Samkeppnisráð, hefði hún sagt, þetta er skálkaskjól fyrir róttæklinga. En viðskiptaráðherra er ekki eins forstokkuð og gefur sér þá forsendu, að þessi niðurstaða hafi verið í myndinni.

Samkeppnisstofnanir eru til á Vesturlöndum vegna brotalamar í kenningakerfi markaðsbúskapar. Ekki hefur enn fundizt nein lausn af hálfu markaðarins á viðleitni fyrirtækja til að komast í ráðandi markaðsaðstöðu og nota síðan aðstöðuna til að hækka verðlag á nýjan leik.

Hvergi er meiri þörf á slíku andófi en einmitt á Íslandi, þar sem fáokun ríkir í mörgum atvinnugreinum, í flugi, í vöruflutningum, í eldsneyti og í tryggingum. Hjá bönkunum kemur þetta fram í miklu meiri vaxtamun inn- og útlána en þekkist í nokkru öðru vestrænu ríki.

Þótt komið hafi verið upp Samkeppnisstofnun og -ráði á Íslandi, hafa ráðamenn þjóðarinnar fremur talið það vera upp á punt og til að slá ryki í augu umheimsins heldur en að vinna gegn fáokun og einokun, sem ráðamenn okkar hafa yfirleitt reynzt vera hæstánægðir með.

Íslenzk stjórnvöld eru meira að segja enn að úthluta einkaleyfum til að hindra samkeppni. Frægasta dæmið um það er bandaríska fyrirtækið deCODE Genetics, sem undir heitinu Íslenzk erfðagreining fékk einkarétt til að setja íslenzkar sjúkraskýrslur í einn gagnabanka.

Það er ríkjandi hagfræðikenning á Vesturlöndum, að samþjöppun valds á hverjum markaði fyrir sig verði skaðleg, þegar hún fer yfir visst mark. Menn eru ekki alveg sammála um hvert markið sé, enda fer það dálítið eftir aðstæðum í hverju landi og hverri grein.

Samkeppnisráð telur 53% hlutdeildar í innlánum vera of mikla markaðshlutdeild Landsbanka og Búnaðarbanka og 64% bóka- og tímaritaprentunar vera of mikla markaðshlutdeild Odda og Steindórsprents-Gutenberg. Hvarvetna á Vesturlöndum hefði niðurstaðan orðið eins.

Um leið og þessum niðurstöðum er fagnað er ástæða til að benda á, að bann við sameiningu leysir ekki allan vanda. Erlend og íslenzk reynsla sýnir, að tvö eða þrjú fyrirtæki eiga mjög auðvelt með að koma upp samráði, sem skaðar neytendur ekki minna en sameining.

Útkoman markar þó tímamót, því að rofið hefur verið skarð í notalegt samkomulag ráðamanna og stórforstjóra um að mjólka megi íslenzka neytendur að vild.

Jónas Kristjánsson

DV