Hamslaus herraþjóð.

Greinar

Smám saman eru að koma í ljós hinar hroðalegu afleiðingar af hamslausum hernaði Ísraelsmanna í Líbanon. Um tíu þúsund manns hafa verið drepin og um sautján þúsund særð. Sumt eru þetta palestínskir skæruliðar, en mest óbreyttir borgarar.

Allar stærstu borgir Suður-Líbanon eru í rjúkandi rústum eftir innrás Ísraelsmanna. Í Sídon standa úthverfin ein. Í hinni fornu hafnarborg Tyrus er tæpast hægt að finna neitt hús uppistandandi. Í Damour er ekkert lífsmark.

Sex hundruð þúsund manns eru heimilislaus í kjölfar hernaðar, sem meðal annars byggðist á hamslausum sprengjuárásum á borgir og bæi. Þetta er einn fimmti hluti allra íbúa landsins, jafngildir rúmlega fjörutíu þúsund Íslendingum.

Ísraelsmenn hindruðu ferðir blaðamanna í kjölfar innrásarinnar til að koma í veg fyrir, að fréttir bærust af útreið almennings til annarra landa, sérstaklega Bandaríkjanna, sem standa undir útþenslustefnu Ísraelsstjórnar.

Lengi fruman af þessu stríði eða fjöldamorðum var alþjóðlegum hjálparstofnunum meinaður aðgangur að hinum hrjáðu svæðum. Meira að segja barnahjálp Sameinuðu þjóðanna fékk ekki að starfa, þótt börn hafi fengið slæma útreið í stríðinu.

Ofan á aðra grimmd hefur Ísraelsher neitað að viðurkenna Palestínumenn sem stríðsfanga, – segir þá vera hryðjuverkamenn. Virðist það gilda bæði um börn og gamalmenni. “Das Herrenvolk” í Ísrael setur sér eigin siðareglur.

Sigurvegari og þjóðhetja Ísraelsmanna í þessu viðbjóðslega stríði er Ariel Sharon varnarmálaráðherra. Hann er gamall hryðjuverkamaður úr hinum illa þokkuðu lrgun-samtökum og á sér jafnvel verri feril en Begin forsætisráðherra.

Árið 1953 framdi hryðjuverkaflokkur undir stjórn Sharons morð á 69 manns, þar á meðal börnum, með því að loka fólkið inni í 46 húsum og sprengja þau í loft upp. Þetta var hefnd í stíl nasistanna í Lidice og víðar.

Hér fyrr á árum réðu fyrir Ísrael vitrir menn á borð við Ben Gurion. Þá nutu Ísraelsmenn mikils stuðnings gegn yfirgangi nágranna, sem áttu erfitt með að sætta sig við þetta nýja og framandlega ríki á aldagömlu arabísku landi.

Eftir því sem Ísraelsmönnum jókst fiskur um hrygg, jukust hernaðaryfirburðir þeirra í heimshlutanum. Fyrst háðu þeir stríð sín sem varnarstríð. En smám saman hefur varnarstefnan breytzt í yfirgang og nýjasta stríðið er sóknarstríð.

Við gömlu og vitru mönnunum hafa tekið menn eins og Begin og Sharon. Vegur þeirra byggist á, að nógu margir Ísraelsmenn hafa látið velgengnina hlaupa með sig í svipaðar herraþjóðargönur og Þjóðverjar voru leiddir í fyrir stríð.

Geta þeirra Begins og Sharons til að láta drepa óbreytta borgara í Líbanon byggist einnig á fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi stjórnar Reagans í Bandaríkjunum, sem undir niðri lætur sér vel líka landvinninga síðustu vikna.

Að formi til er Líbanonsstríðið háð gegn samtökum Palestínumanna, sem hafa smám saman þróazt frá því að vera samtök hryðjuverkamanna yfir í að vera viðurkenndur og raunverulegur höfuðmálsvari hinna hrjáðu Palestínumanna.

Í raun er stríð Ísraelsmanna aðallega háð gegn óbreyttum, óviðkomandi og áhrifalitlum Líbanonsmönnum. Þeir hafa verið drepnir þúsundum saman og land þeirra lagt í rúst af stríðsvélarþjóð, sem komin er út af sporinu og lítur á sig sem “herraþjóð”.

Jónas Kristjánsson.

DV