Hamslaus veiðigræðgi

Greinar

Mælingar á afla sex íslenzkra skipa hafa sýnt, að mestum hluta Smugunnar í Barentshafi væri lokað, ef íslenzkar lokunarreglur giltu á þeim slóðum. Í flestum tilvikum var smáfiskur meira en fjórðungur aflans, sem mundi leiða til umsvifalausrar lokunar hér við land.

Umgengni íslenzkra skipstjóra og sjómanna í Smugunni yrði aldrei þoluð af yfirvöldum hér við land. Dæmi hefur verið nefnt um, að íslenzkur frystitogari hafa hent helmingi af 30 tonna hali í hafið. Að öðru leyti er talið, að íslenzku saltfisktogararnir séu einna verstir.

Það eru lélegar málsbætur, þótt bent sé á, að umgengni Norðmanna og ýmissa annarra sjómanna sé litlu betri á karfamiðum utan lögsögu á Reykjaneshrygg. Þar er verið að ganga að karfastofninum með sams konar smáfiskadrápi og á þorskstofninum í Smugunni.

Á báðum stöðunum væri til bóta, að helzta strandríkið, í öðru tilvikinu Ísland og í hinu Noregur, gæti einhliða sett strangari reglur um veiði á svæðinu og haldið uppi virku eftirliti með reglunum. Slíkt verður að gera einhliða og strax, því að stofnarnir eru í hættu.

Því miður sýnir reynslan, að græðgi sjómanna og skipstjórnarmanna eru lítil takmörk sett. Það gildir ekki, að þeir séu færir um að vernda framtíðarhagsmuni sína eins og veiðimenn eru sagðir hafa gert í fyrndinni. Þeir fórna þeim hiklaust fyrir þrengstu stundarhagsmuni.

Skipulag veiða við Ísland er markað þeirri staðreynd, að sjávarútvegurinn er ófær um að stunda sjálfbærar veiðar. Allt kvótakerfið er byggt á þeirri staðreynd, að flotvarpan hefði valdið algeru hruni nytjafiska við Ísland, ef ekki hefði verið stofnað til þess kerfis.

Kvótakerfið hefur þó ekki megnað að snúa blaðinu við. Mikið er veitt af smáfiski utan kvóta og honum hent í sjóinn aftur, svo að hann lendi ekki í mælingum. Er áætlað, að fleygt sé tæpum þriðjungi þorskaflans til að standast vigt. Þetta er græðgi á geðveikisstigi.

Til viðbótar kunna hugvitsmenn í sjávarútvegi ótal aðferðir við að færa til afla. Ýmist er, að hann flytzt af kvótaskipum yfir á banndagaskip eða þá að tegundir í afla breytast með dularfullum hætti, svo sem dæmin sýna. Kvótakerfið er hriplegt og úr sér gengið.

Vegna græðginnar hafa stofnar minnkað og veiðin einnig. Rányrkja hefur gengið nærri dýrmætustu nytjastofnunum. Samt halda sjómenn uppi sífelldri gagnrýni á veiðitakmarkanir kvótakerfisins og heimta meiri úthlutanir. Græðgin jaðrar við sjálfseyðingarhvöt.

Kvótakerfið er svo gallað, að það dugir ekki til að vernda framtíðarhagsmuni sjávarútvegsins gagnvart skipstjórnarmönnum, sem eru svo viðþolslausir af hamslausri græðgi, að þeir koma með verðlausan mokafla að landi, af því að þeir láta hann skemmast í lest.

Ítrekuð dæmi hafa komið fram um, að menn hamast svo við veiðar, að þeir missa ráð og rænu og átta sig ekki lengur á, að heildarverðmæti aflans minnkar við hvert mokhal, einfaldlega af því að aflinn lendir meira eða minna í bræðslu, þegar hann kemur að landi.

Þjóðin á að taka fram fyrir hendur sjómanna og skipstjórnarmanna. Hún á þann auð, sem þeir eru að eyðileggja í friðleysi sínu. Hún á að ná til baka þeim verðmætum, sem hún hefur trúað sægreifunum fyrir og þeir farið illa með eins og ótrúi þjónninn í biblíunni.

Hvort sem kvótakerfi verður notað áfram eða nýtt kerfi tekið upp á rústum þess, verður að nást stjórn á hamslausri græðgi, sem einkennir fiskveiðar okkar.

Jónas Kristjánsson

DV