Kalífunum í Bagdað var fyrr á öldum kennd ein iðngrein, svo að þeir gætu haft af henni lifibrauð, ef örlögin veltu þeim úr valdasessi. Þetta er aftur orðið áhugavert öryggisnet, þegar svo er komið, að háskólamenntun veitir aðeins stundum aðgang að starfi við hæfi.
Skólakerfi okkar er eins og raunar annarra þjóða læst í gömlum viðjum bóknáms, sem framleiðir mikinn fjölda tiltölulega sérhæfðs fólks. Sumt af þessu fólki á erfitt með að fá vinnu á síðustu og verstu tímum og býr ekki yfir nægri sveigju til að taka upp nýja þræði.
Skólarnir kæmu notendum sínum að betra gagni, ef minni áherzla væri lögð á námsefni, sem kveikir ekki áhuga. Tímanum og orkunni væri betur varið til að auðvelda þeim að komast af úti í lífinu, hvernig sem allt veltist, þegar heilar atvinnugreinar hníga eða rísa.
Flestir geta sparað sér mikinn kostnað á lífsleiðinni með því að kunna að handleika verkfæri, bæði handknúin og vélknúin. Hamrar, skrúfjárn og sagir trésmiðanna liggja í augum uppi, einnig tengur og skrúfjárn rafvirkjanna, svo og rörtangir pípulagningamanna.
Sá, sem kann að handleika verkfæri atvinnumanna í byggingaiðnaði, getur sparað sér hundruð þúsunda króna á lífsleiðinni. Svipað er að segja um þá, sem kunna að handleika verkfæri vél- og bílvirkja. Verkfæraleikni getur látið lágar tekjur endast eins og miðlungstekjur.
Með verkfærum er hér átt við þau tól, sem hversdagslega eru notuð í handverki og ekki þau, sem notuð eru í handavinnutímum skóla til að búa til jólagjafir úr krossviði eða í öðru föndri af slíku tagi. Hér er átt við, að skólafólk kynnist alvöruverkfærum daglegs lífs.
Eins er mikilvægt að reyna að kenna nemendum á peninga með því að setja þá í spor neytenda, sem þurfa að láta enda ná saman. Í stað einhvers hluta af þeirri óhlutlægu stærðfræði, sem þeim er boðin, má bjóða þeim dæmi, sem skipta máli í daglegu lífi fólks.
Mörgum nemendum mundi bregða, ef þeir framreiknuðu tíu ára kostnað af einum sígarettupakka á dag eða tíu ára kostnað af einum lítra af gosi á dag. Þannig má líka framreikna bjórinn og súkkulaðið, sem margir innbyrða af algeru tillitsleysi við eigin fjárhag.
Í neytendatímum geta skólar sent nemendur í verzlanir og látið þá setja saman ímyndaðar matarkörfur, sem rúmast innan ramma tilgreindra fjárráða. Með samanburði á nytsemi og kostnaði matarkarfanna má reyna að vekja tilfinningu fyrir fánýti sumrar neyzlu.
Fólk á misjafnlega erfitt með að láta peningana endast. Sumir verða háðir hátekjum og verða bjargarlausir, ef þeir þurfa að handleika verkfæri eða velta fyrir sér krónum vegna óvæntrar tekjuskerðingar. Aðrir hafa lag á að láta tekjurnar endast, hverjar sem þær eru.
Ekki þarf að líta í margar matarkörfur fólks í kjörbúðum til að sjá, að fjöldi manna hefur litla sem enga tilfinningu fyrir gæðum og verði. Körfurnar eru fullar af lélegri dósavöru og pakkavöru, er kostar miklu meira en vönduð og kræsileg vara, sem er minna unnin.
Sumt fólk virðist fálma eins og í leiðslu eftir mikið auglýstri vöru, innihaldsrýrum ímyndunum og verksmiðjuframleiddu ígildi dýrafóðurs, en missir af því, sem er bragðbezt, hollast og ódýrast. Ungt fólk hrekst út á neytendamarkaðinn án nokkurrar verkþjálfunar.
Með því að bjóða verkfæra- og neyzluþjálfun geta skólarnir öðlazt nýjan tilgang og fært Íslendingum framtíðarinnar handlagni og hyggindi, sem í hag koma.
Jónas Kristjánsson
DV