Handvirkt krukk hæfir í bili.

Greinar

Brotinn hefur verið ísinn í kjaraviðræðunum. Vinnumálasamband samvinnufélaganna hefur ekki tekið upp nýjustu kröfur Viunuveitendasambandsins um sjálfvirka vísitöluskerðingu vegna aflabrests og vill í þess stað semja á fyrri grunni.

Fyrir uppákomu Vinnuveitendasambandsins lá í rauninni aðeins eitt lítið prósentustig milli deiluaðila. Alþýðusambandið gat sætt sig við 2,5% vísitöluskerðingu 1. september í haust, en Vinnuveitendasambandið vildi 3.5%.

Líta má á það sem tímamót, að unnt skuli vera að ræða og jafnvel semja um vísitöluskerðingu í kjarasamningum. Er það gott dæmi þess, að viðræður um kjaramál eru smám saman að færast nær raunveruleika efnahagslífsins.

Út af fyrir sig er rökrétt að hugsa málið lengra og slá fram hugmyndum um einhver sjálfvirk tengsl efnahagsástands, til dæmis aflabragða annars vegar og launagreiðslna hins vegar. Slíkt samhengi er æskilegt markmið.

Menn eru smám saman að átta sig á, að kjarasamningar hafa lítil áhrif haft á lífskjörin. Þau ákveðast meira á öðrum vettvangi, sumpart af gerðum stjórnvalda, en einkum af gengi efnahagslífsins, þegar litið er til langs tíma.

Í stað þess að semja um lífskjörin eru menn í almennum kjarasamningum meira að semja um verðbólgustig næstu mánaða. Háir samningar valda meiri verðbólgu og lágir samningar minni, en lífskjör launafólks ern hin sömu í báðum tilvikum.

En lok samningaviðræðna eru ekki rétti tíminn til að kasta fram kröfum um tengingu verðbóta við aflasveiflur. Slíkar hugmyndir þarf að viðra með góðum fyrirvara og gefa öllum málsaðilum tíma til að skoða þær í krók og kring.

Auk þess er engan veginn sjálfsagt, að á verksviði samtaka, sem fjalla um stóran hluta vinnumarkaðsins, en ekki hann allan, sé sjálfvirkt vísitölukrukk og aðrar gerðir, er snerta alla landsmenn, líka þá, sem ekki er verið að semja fyrir.

Hitt er svo líka rétt, að skammt er orðið í sjálfvirkt vísitölukrukk eins og aflabrestsviðmiðunina, þegar aðilar vinnumarkaðsins eru byrjaðir að ræða handvirkt vísitölukrukk á borð við vísitöluskerðingu um 2,5 eða 3,5%.

En hin raunverulega ástæða handvirka krukksins var önnur. Með því að færa launahækkun láglaunafólks upp í samninga byggingamanna og láta almenna vísitöluskerðingu koma á móti, var verið að reyna að láta láglaunafólkið ekki dragast aftur úr.

Þetta var fyrst og fremst krókur Alþýðu- og Vinnuveitendasambandsins á móti bragði meistara og sveina í byggingaiðnaði, sem ætluðu að maka krókinn á kostnað láglaunafólks í krafti þess, að þeir voru að semja við sjálfa sig.

Í lokahríð samninganna áttuðu ráðamenn Vinnuveitendasambandsins sig svo á, að þeir gátu gengið lengra, af því að launafólk vildi ekki fara í verkfall og að öflug andstaða var gegn verkföllum í mörgum aðildarfélögum Alþýðusambandsins.

Vinnuveitendasambandið sneri þá við blaðinu og sló fram kröfunni um tengsl aflabragða og verðbóta. Það vissi, að verkfallsvopnið hafði dignað í höndum Alþýðusambandsins og að líklega mætti þæfa málin til hausts án verkfalla.

Miðað við allt þetta er gott og sanngjarnt, ef Alþýðusambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna geta fundið meðaltalið milli 2,5 og 3,5% og náð samkomulagi á fyrra grunni. Aðrir hljóta að fylgja á eftir og vinnufriður verða að nýju. Um sjálfvirkt vísitölukrukk má ræða síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV