Hann er verri en ég

Greinar

Rétt rúmlega þriðjungur kjósenda greiddi atkvæði í kosningunum í Bandaríkjunum í síðustu viku, þótt kosið væri til margs konar embætta í sveitarfélögunum, hjá ríkjunum og til beggja deilda þjóðþingsins. Tveir af hverjum þremur kjósendum tóku alls engan þátt í lýðræðinu.

Sumir kusu ekki, af því að þeir töldu atkvæði sitt skipta svo sem engu máli. Öðrum fannst kosningabaráttan vera of ógeðfelld fyrir sinn smekk og hjálpuðu þannig óbeint þeim, sem höfðu forustu í sóðaskapnum. Flestir eru þeir, sem hafa vanizt því að kjósa aldrei.

Þetta er auðvitað áhyggjuefni, ekki bara fyrir Bandaríkjamenn, heldur einnig fyrir aðra, af því að mörg dæmi eru um, að þjóðfélagslegar breytingar í Bandaríkjunum síist til annarra landa vegna hinna miklu og augljósu áhrifa, sem bandarískur lífsstíll hefur um allan heim.

Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af ört vaxandi sóðaskap í bandarískri kosningabaráttu. Sóðaskapurinn kemur einkum fram í mínútubrots sjónvarpsauglýsingum, þar sem frambjóðendur ata hver annan auri sem mest þeir mega og án tillits til staðreynda.

Kjósendur geta að vísu komizt að hinu sanna, ef þeir fylgjast með fréttum annarra fjölmiðla, þar sem meðal annars er flett ofan af lyginni í sjónvarpsauglýsingum frambjóðenda. En kjósendur greiða ekki atkvæði gegn skítkösturum, heldur styðja þá með því að sitja heima.

Lágkúran í bandarískum sjónvarpsauglýsingunum er ævintýraleg. Myndir eru falsaðar til að sýna atburði, sem aldrei hafa gerzt. Lygin er endurtekin nógu oft, unz aularnir fara að trúa henni. Almennt má segja, að engin siðalögmál gildi um kosningabaráttu frambjóðenda.

Þar á ofan þurfa frambjóðendur til þjóðþingsins að verja sem svarar hundruðum milljóna króna og jafnvel milljörðum króna til að kaupa sér þingsæti með þessum soralega hætti. Þá peninga fá þeir hjá þrýstihópum, sem síðan telja sig eiga tilkall til þingmannanna.

Ástæða er til að velta því fyrir sér, hvort eitthvað af þessu muni síast til útlanda, til dæmis hingað, og hvernig skuli brugðizt við slíku. Það væri afar slæmt, ef íslenzkir frambjóðendur teldu sig verða að heyja dýra og neikvæða kosningabaráttu og yrðu háðir þrýsihópum.

Hér er barátta í prófkjörum og kosningum fremur málefnaleg og einkum þó jákvæð, því að meiri áherzla er lögð á að hrósa sér en að lasta hina. En það er ills viti, að prófkjörsbrátta einstaklinga skuli vera farin að kosta mikla peninga, hundruð þúsunda króna á mann.

Engin teikn eru á lofti um, að Bandaríkjamenn hreinsi til hjá sér á þessu sviði, jafnvel þótt sorinn og kostnaðurinn hafi stórlega dregið úr trausti almennings á mikilvægustu stofnunum stjórnmálanna. Þess vegna sökkva þeir dýpra í hverjum kosningaslagnum á fætur öðrum.

Sumpart leiðir þetta til, að kjósendur eru sífellt að skipta út þingmönnum. Kjósendur telja þá, sem fyrir sitja á þingi, vera gerspillta og gagnslausa, og kasta þeim út, jafnvel þótt aðrir komi í staðinn, sem fyrirfram má vita, að eru enn spilltari og gagnsminni og einkum sóðalegri.

Bandaríkjamönnum virðist í vaxandi mæli fyrirmunað að velja sér umboðsmenn og aðra leiðtoga. Hver forsetinn á fætur öðrum er ímynd án verðugs innihalds, enda verða kjósendur þeirra jafnhraðan fyrir vonbrigðum með þá. Sama gildir um þingmenn og aðra stjórnmálamenn.

Svo virðist líka sem gróin sjálfsánægja Bandaríkjamanna komi í veg fyrir, að þeir sjái almennt, hve alvarlegt og ólýðræðislegt ástandið er orðið í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV