Hann hristi baukinn

Greinar

Verið getur, að höfuðborgarbúar séu sjálfumglaðir, eins og raunar hefur oftar verið sagt um íbúa Norðausturlands, en öfugmæli felast í að segja Reykvíkinga sjálfhverfa sem slíka. Engir landsmenn eru minna uppteknir af búsetu sinni en einmitt íbúar Reykjavíkur og nágrennis.

Skólameistari Menntaskólans á Akureyri setti fram róttækustu fordóma byggðastefnunnar í skólaslitaræðu síðasta laugardags. Hann fór mikinn í gagnrýni á sveitaþorpsmenningu Reykjavíkursvæðisins og einsýna, sjálfumglaða og sjálfhverfa íbúa borgríkisins.

Engar rannsóknir staðfesta tilgátur skólameistarans, en reynslan segir okkur, að sumt fólk úti á landi er oft upptekið af búsetu sinni, en höfuðborgarbúar sjaldan. Menn eru oft Akureyringar fyrst og Íslendingar svo, en syðra eru menn bara einfaldlega Íslendingar.

Þetta sjáum við bezt af því, að úti á landi er fremur mikið samband milli þingmanna og kjósenda um ránsferðir í ríkissjóð, en lítið er um slíkt samband á höfuðborgarsvæðinu. Þingmenn þess eru þingmenn þjóðarinnar allrar, en aðrir þingmenn gæta staðbundinna hagsmuna.

Sagnfræði skólameistarans er einkar bágborin. Langt aftur í árþúsund hafa borgríki blómstrað í tugi kynslóða, Babýlon, Aþena, Róm og Singapúr. Ekkert lögmál segir, að borgarmenning geti ekki lifað meira en þrjár kynslóðir og engar horfur eru á, að það gildi um Singapúr.

Ef skólameistarinn hefur rétt fyrir sér um stærð og fjölmenni höfuðborgarsvæðisins, að það nái frá Þjórsá í suðri til Hvítár í vestri og hýsi 200.000 manns, er borgin komin á það stig, að hún hlýtur að vera farin að endurnýja sig sjálf að mestu leyti án aðstoðar landsbyggðar.

Skólameistarinn fordómafulli telur, að skapandi minnihluti komi af landsbyggðum til höfuðborga, svo að þær síðarnefndu gangi ekki úr sér. Ekki þurftu Laxness, Björk og Kári mikla aðstoð landsbyggðarinnar, svo að skólameistarinn skautar líka á þessu sviði á hálum ís.

Raunar væri ágætt, ef einhverjir vildu rannsaka samhengi fæðingarsvæðis og ýmissa afreka, svo og ýmissa persónugalla á borð við einsýni og sjálfumgleði, þótt ekki væri nema til að þrengja svigrúm manna til að vaða á súðum um efni, sem þeir hafa ekkert kynnt sér.

Reykjavík hefur ekki fest sig í sessi sem stórborg og kann að vera ofvaxið sveitaþorp í augum skólameistara úti á landi. En gaman væri að vita, hvar Akureyri situr á þeim mælikvarða. Reykjavík er hins vegar á hraðri siglingu í átt til hefðbundinna einkenna stórborga.

Mikilvægt er, að Reykjavík takist að halda til jafns við erlendar stórborgir. Framtíð íslenzkrar menningar byggist ekki á Akureyri, heldur höfuðborginni. Það lendir á henni að hamla gegn atgervisflótta til útlanda. Víglína íslenzkrar byggðastefnu er um Kvosina, en ekki Gilið.

Annað hvort stendur höfuðborgarsvæðið eða fellur og þar með stendur Ísland eða fellur. Annað hvort vilja menn búa á höfuðborgarsvæðinu eða þar sem tækifærin eru úti í heimi. Þetta er staðreyndin að baki aðdráttarafls borgríkisins og magnar öfund og vanstillingu úti á landi.

Smám saman kom í ljós, hvað skólameistarinn var að fara. Honum sárnar, að sífellt fækkar þeim, sem sækja um skólavist. Hann vill leysa málið með því að láta ríkið reisa fleiri heimavistir á Akureyri og freista þannig fleiri til að koma. Hann var að hrista stafkarls baukinn.

Hingað til hafa slíkir fremur reynt að lofa sig en að lasta aðra. En svo getur runnið á menn móður málflutnings, að þeir sjáist ekki fyrir í ofstæki og fordómum.

Jónas Kristjánsson

DV