Hann var verri en ég

Greinar

Deilur núverandi og fyrrverandi ráðherra um spillingu eru í sama fari og þær hafa alltaf verið. Stef deilnanna felst í orðunum: Hann var verri en ég. Þannig er moldryki þyrlað upp af umræðunni um spillingu, svo að almenningur eigi erfiðari leið að kjarna málsins.

Ekkert fordæmi er fyrir því, að pólitískir aðstoðarmenn ráðherra séu gerðir að ráðuneytisstjórum. Með því að gera slíkt í þrígang í þessari stjórnartíð hafa ráðherrar Alþýðuflokksins bætt nýrri vídd við þá spillingu, sem stjórnmálaflokkarnir stunduðu áður í kerfinu.

Verði framhald á þessari iðju, er ljóst, að ráðuneytin verða eyðilögð á sama hátt og utanríkisþjónustan. Eyðileggingin felst í, að hæfir menn fást síður til starfa, af því að þeir hafa ekki sömu von og áður um að vinna sig upp innan kerfisins í æðstu stöður ráðuneytanna.

Eðlilegt er, að svigrúm sé til að fá hæfa menn til að fara milli sviða í þjóðfélaginu. Það er raunar röksemdin, sem spilltir ráðherrar bera fram til varnar gerðum sínum. En þeir hafa þá jafnan í huga pólitíska kommissara eða kvígildi af ýmsu tagi, en ekki utanaðkomandi fólk.

Alþýðuflokkurinn hefur verið mikilvirkur á þessu sviði að undanförnu. Hann hefur deilt út stöðum ráðuneytisstjóra, seðlabankastjóra, sendiherra og ætlar senn að afhenda embætti tryggingaforstjóra ríkisins. Alþýðuflokkurinn er forustuflokkur í þessari grein spillingar.

Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa varið sig með því að rekja í smáatriðum spillingu fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins, sem reyndu á tímabili að taka forustu í pólitískri spillingu. Stefið í vörninni er gamalkunnugt: Hann var verri en ég. Þannig er málinu drepið á dreif.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins höfðu hugmyndaflug á sviði spillingar. Einn þeirra komst upp í þrjá pólitíska aðstoðarmenn á ríkisjötunni í stað eins. Þeir voru líka duglegir við að gefa peninga ríksins til þóknanlegra fyrirtækja og stela þeim til pólitískra flokksþarfa sinna.

Alþýðubandalagið sérhæfði sig í að nota peninga skattborgaranna til að borga margvíslegan flokksáróður, svo sem hjartnæma bæklinga með litmyndum af ráðherrum Alþýðubandalagsins. Fyrir næstu kosningar munum við sjá, hvort Alþýðuflokkurinn fetar þessa leið.

Fjórflokkurinn er allur spilltur, hvort sem hann heitir Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag eða Alþýðuflokkur. Allir rugla þeir reytum ríkis, flokks og einstaklinga. Allir misnota þeir aðstöðuna, reisa velferðarkerfi gæludýra og skömmtunarstofur hlunninda.

Allt tal stjórnmálamanna um stefnur og pólitík og ágreining er sjónhverfing til að breiða yfir þá staðreynd, að fjórflokkurinn er fyrst og fremst aðferð til að komast yfir peninga skattgreiðenda til að kaupa sér fylgi og aðstöðu og kvígildum sínum og gæludýrum stóla og stöður.

Svona mun þetta verða áfram, því að kjósendur hafa ekki sett stjórnmálamönnum stólinn fyrir dyrnar. Þess vegna mun fjórflokkurinn rækta spillinguna, sem hann hefur komið á fót, og þess vegna munu hugmyndaríkir ráðherrar þreifa fyrir sér á nýjum sviðum spillingar.

Einhvern tíma munu þeir þó fara yfir markið, rétt eins og ítalskir starfsbræður þeirra gerðu fyrir skömmu. Eitt lítið spillingarkorn mun fylla mælinn og vekja kjósendur til þeirra skyldustarfa að reka óværuna af höndum sér. En sá tími er því miður ekki enn í augsýn.

Þess vegna er fjórflokkurinn enn að færa sig upp á skaftið. Alþýðuflokkurinn er hafður í forustuhlutverki, enda er hann flokka reyndastur á sviði spillingar.

Jónas Kristjánsson

DV