“Hann varð snemma ólæs,” skrifaði þekktur rithöfundur um kunnan athafnamann í Eyjum. Þetta orðaval má nota til að lýsa svonefndu eftirlæsi, sem felst í, að fólk lærir í skóla að hrafla í lestri, en þarf ekki að halda við kunnáttunni, er það kemur til starfa í samfélaginu.
Í árdaga voru þjóðir ólæsar. Fyrir fáum öldum eða áratugum urðu þær læsar. Nú eru þær að verða eftirlæsar. Sem dæmi um þessar breytingar má nefna, að nýleg könnun leiddi til þeirrar niðurstöðu, að um fjórðungur íslenzkra grunnskólanema geti tæpast talizt læs.
Grunnskólinn á Íslandi snýst að verulegu leyti um að kenna börnum að lesa, reikna og skrifa. Þetta gengur treglega, enda hefur tæknin gert fólki kleift að fara í kringum þetta. Það lætur lyklaborðin skrifa og reikna fyrir sig og fylgist með í útvarpi og sjónvarpi.
Umgengni við tölvur minnir á matseðla veitingahúsa. Menn benda með músinni á þann rétt, sem þeir kjósa af matseðlum tölvunnar. Senn nægir fólki að pota á skjánum í það, sem það vill, eins og þeir þekkja, er hafa prófað íslenzka ferðavakann sér til skemmtunar.
Aukin síma-, tölvu- og skjátækni mun í ört vaxandi mæli gera fólki kleift að lifa lífinu og komast áfram í lífinu án þess að kunna að lesa, reikna og skrifa. Að vísu mun lestrarkunnátta áfram verða aðgöngumiði vel launaðra og vel virtra starfa í þjóðfélaginu.
Með myndrænna efnisvali hafa upplýsingamiðlar á borð við dagblöð lagað sig að breytingunum. Svonefndar fagurbókmenntir eiga hins vegar í vök að verjast í baráttu við draumaverksmiðjur sjónvarps. Bóklestur sem bóklestur er á undanhaldi hér sem annars staðar.
Fyrst urðu afþreyingarbókmenntir að rifa seglin og nú er röðin komin að hinum eiginlegu bókmenntum. Til skjalanna eru að koma kynslóðir, sem eru vanar að nota útvarp og sjónvarp sem afþreyingu og menningartæki og hafa úr meira en nógu að velja á því sviði.
Auðvelt er að rökstyðja, að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Umheimurinn bjóði nægar upplýsingar, næga menningu og næga afþreyingu, þótt bóklestur dragist saman. Nýjum tímum fylgi nýir miðlar. Bækur séu einfaldlega orðnar að úreltu fyrirbæri.
Þetta er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er í uppsiglingu nýr þáttur í aukinni stéttaskiptingu, sem felst í, að gerendur þjóðfélagsins eru læsir og nota það til að afla sér upplýsinga og menningar, en þolendur þjóðfélagsins eru eftirlæsir og horfa stjarfir á imbakassann.
Upp eru að rísa kynslóðir lágstéttarfólks, sem hefur tilhneigingu til að lenda í vítahring atvinnuleysis, bjórneyzlu og sjónvarpsgláps, af því að þjóðfélagið er orðið svo ríkt og svo tæknivætt, að það hefur efni á að halda öllum uppi, þótt þeir séu meira eða minna úti að aka.
Eftirlæsa og óvirka stéttin ímyndar sér, að hreyfanlegar myndir í sjónvarpi sýni henni veruleikann. Svo er ekki. Saga er sjón ríkari. Frægasta dæmið er Persaflóastríðið, sem var í beinni útsendingu. Þeir, sem vildu fylgjast með því í raun, urðu að nota blöð og útvarp.
Sjónvarpstéttirnar missa sjónar á veruleikanum og telja sér nægja ímynd hans eins og hún kemur fram í sjónvarpi. Þess vegna kjósa sjónvarpsstéttirnar sér pólitíska foringja í samræmi við tilbúnar ímyndir, sem þeir sjá í sjónvarpi, verksmiðjuframleidda persónuleika.
Vaxandi eftirlæsi er þáttur í vítahring, sem eykur stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og dregur úr líkum á, að þjóðir hafi vit á að velja sér hæfa menn til forustu.
Jónas Kristjánsson
DV