Fjaðrafokið í hænsnabúinu bendir til, að rebbi sé kominn í heimsókn og kjúklingarnir séu hræddir við að vera étnir í þrætubókarlist. Sjálfsagt verða félagshyggjumennirnir að gæta sín, þegar einn frjálshyggjumaður er kominn í deildina til að fokka upp fræðunum.
Þótt flestir geti verið sammála um, að hvergi eigi Hannes H. Gissurarson fremur heima en hjá kennurum félagsvísindadeildar, er eðlilegt, að háskólamenn séu lítið hrifnir af aðferðinni, sem notuð var, að pólitískur ráðherra skipaði pólitískan mann í lausa kennarastöðu.
Allt frá upphafi háskólans hafa menntaráðherrar einstaka sinnum skipað flokksgæðinga í kennarastöður gegn vilja háskólamanna. Bezt væri, að sá kaleikur yrði tekinn frá ráðherrunum og fundin önnur leið til að gæta þeirra sjónarmiða, sem ráðherra ætti að hafa.
Flestir aðrir en starfsmenn háskólans mundu að athuguðu máli telja nauðsynlegt, að fleiri en starfsmenn hans fjölluðu um ráðningu nýrra starfsmanna og réðu jafnvel úrslitum við slíka ákvörðun. En þessi utanaðkomandi aðili þarf ekki að vera pólitískur ráðherra.
Ætla má, að í eðlilegum stofnunum myndist óformlegur klúbbur starfsmanna, sem þekkja hver annan. Þeir taka hver annan fram yfir utanaðkomandi menn og reyna að hagræða málum á þann veg, að slíkt sé fram kvæmanlegt. Afleiðingin er, að þessar stofnanir staðna.
Algengasta aðferðin við að útvega innanhússmanni stöðu í samkeppni við utangarðsmann er að búa stöðuna til á þann hátt, að hún sé klæðskerasaumuð fyrir starfsmanninn. Þannig hafa ýmsir hæfir menn óbeint verið hindraðir í að sækja um stöður við háskólann.
Íslendingar, sem hafa náð langt í starfi fyrir erlenda háskóla og vildu gjarna hverfa heim, þjóðinni til mikils gagns, hafa sumir ekki treyst sér til að sækja um lausar stöður við íslenzka háskólann, af því að stöðuauglýsingar hans eru sniðnar fyrir ákveðna innanhússmenn.
Smíði stöðunnar er miklu virkara tæki að þessu leyti heldur en skipun dómnefnda. Dæmin benda svo líka til, að starfsmenn félagsvísindadeildar hafi óeðlilega háar hugmyndir um getu sína til að vera algerlega óháðir starfsbræðrum sínum, þegar þeir sitja í dómnefndum.
Háskólinn þarf meira en flestar aðrar stofnanir á því að halda, að þangað streymi hæfileikar að utan, úr þjóðlífinu og frá erlendum háskólum. Satt að segja er okkar háskóli að mörgu leyti orðinn mosavaxinn og illa samkeppnisfær, meira að segja í íslenzkum fræðum.
Til þess að hindra háskólann í að verða mosagróinn hvíldarstaður starfsmanna þarf einhver utanaðkomandi aðili að ráða úrslitum, bæði um, hvernig stöður eru auglýstar og hverjir eru ráðnir í þær. Það ætti ekki að vera ráðherrann, heldur valinkunnir menn úti í bæ.
Þessir menn ættu allir að vera gersamlega óháðir háskólanum. Einhverjir þeirra mættu gjarna hafa sýn yfir það, sem er að gerast úti í löndum, og vita um, hvort einhverjir Íslendingar koma þar nærri. Þeir ættu að líta á sig sem mótvægi við klíkuskapinn innanhúss.
Liður í slíku mótvægi fælist í að koma svo sem einum frjálshyggjumanni og doktor á borð við Hannes H. Gissurarson inn í hálfmenntað félagshyggjuhreiður félagsvísindadeildar háskólans, í von um, að rebbi éti ekki öll hænsnin, heldur lífgi bara þrætubókarlistina.
Altjend er Hannes kominn heim. Hann verður félagsvísindadeild háskólans til hressingar og álitsauka, þótt það sé gegn makráðum vilja hennar og háskólans.
Jónas Kristjánsson
DV