Hansen

Veitingar

Hansen í Hafnarfirði er notalegur veitingastaður, sem hefur veið innréttaður í gömlu húsi við Vesturgötuna. Ég reikna ekki með, að útlitið að innanverðu sé upprunalegt. Burðarviðirnir eru málaðir dökkbrúnir og reitirnir á milli þeirra hafðir hvítir. Þetta er raunar algengur nýstíll í erlendum veitingahúsum, sem innréttuð hafa verið í gömlum bindingshúsum.

Ég hef áður hrósað húsaþyrpingunni, sem Hansen er hluti af. Ég gerði þá þau mistök að telja hitt veitingahúsið, sem er andspænis Hansen, Riddarann, vera í gömlu húsi. Það mun vera nýtt hús, en hannað í samræmi við útlit gömlu húsanna umhverfis torgið. En Hansen er hins vegar forgamalt hús með notalega þreytulegum og grófum innviðum.

Hansen er fremur stór staður, rúmar um 70 manns á neðri hæð og 44 undir súð. Stíllinn er hinn sami uppi og niðri, en þó heldur grófari uppi, því að þar eru dökkbrúnu burðarbitarnir meira áberandi. Þar er bar með setukrók, lítill veitingasalur og sérherbergi.

Betra er að sitja í stóra salnum niðri. Hann er í L umhverfis stóran bar, sem er hið eina, er fer aðeins út úr stílnum. Þar eru ekki gul ljós eins og í salnum, heldur hvít. Og þar eru viðir ekki grófir, heldur sléttir. Samanlagt veldur þetta því, að barinn sker nokkuð í augun.

Úr ljósu lofti hanga fimmarma ljósakrónur í gömlum stíl. Veggljósin eru í samræmi við þau. Annars ætti ég ekki að hætta mér út á hálan ís í umfjöllun um ljós, úr því að ég var staðinn að því fyrir viku að halda, að svokölluð Henningsen-ljós í Riddaranum væru úr plasti, en ekki úr málmi, sem þau eru víst í raun.

Hafnarfjarðar-ljósmyndir

Í hvítum veggreitum hanga gamlar Hafnarfjarðarljósmyndir. Pottablóm eru í gluggum með sex litlum rúðum. Tréborðin bera platta í hádeginu og dúka að kvöldi. Við þau eru pílárastólar, brúnir eins og borðin og falla vel að innréttingunni. Á gólfi er parkett, ekki of ljóst.

Rauðbekkjóttar sessur í stólum og veggbekkjum loka hjúsbúnaðardæminu, sem í heild er líklegt til að efla vellíðan gesta. Borðbúnaðurinn er stílhreinn og samstæður. Á kvöldin eru blóm á borðum. Staðurinn virðist mun betur sóttur en nágranninn, þótt hér sé dýrara að vera.

Þjónusta reyndist vera mjög góð í Hansen. Til marks um það er, að starfsfólkið vissi, hver hafði pantað hvað. Slíku er því miður ekki til að dreifa á sumum dýrustu stöðunum. Ennfremur var gestum borið vatn í upphafi og óumbeðið, að vísu ekki ísvatn. Að kvöldi fengu gestir munnþurrkur úr taui.

Matseðillinn í Hansen er afar ófrumlegur og raunar alveg hliðstæður matseðli nágrannans. Báðir þessir matseðlar eru sorglegt dæmi um, að í nýjustu kynslóð veitingamanna er yfirleitt lítill metnaður í matargerð, mun minni metnaður en lagður er í útlit og umbúnað.

Svo afturhaldssamur er matseðill Hansens, að þar er á einum stað boðið upp á skinku með hörpuskelfiski og á öðrum stað er boðið upp á beikon með steinbít. Mér er sagt, að íslenzkum matsveinum sé enn kennd matreiðsla af þessu tagi.

Ekki er vínlistinn skárri. Hann er raunar í flokki lélegustu vínlista íslenzkra veitingahúsa. Eina vínið, sem ég gæti hugsað mér að panta af honum, er Santa Christina, afar hversdagslegt vín, en heilbrigt og ekki efnafræðilegt. Mér sýnist vínkortið vera stæling á lélegum vínkortum annarra húsa, alveg eins og matseðillinn er stæling á lélegum matseðlum.

Matreiðslan upp og ofan

Heldur lakara var að heimsækja Hansen í hádeginu en að kvöldi. Boðið var upp á hádegisseðil, sem var nokkru ódýrari en fastaseðillinn. Ég prófaði af honum vel heita hveitisúpu með miklu af ferskum sveppum og tvenns konar hollustubrauði, öðru brúnu og hinu grófkorna. Þetta var frambærileg súpa, þrátt fyrir hveitið.

Helzti kostur hádegisins var salatborðið. Aðgangur að því var innifalinn í verði aðalréttanna. Þetta var borð með um 20 skálum. Þar voru meðal annars ferskir sveppir, hrátt blómkál, gúrka, rófuræmur og olífur, auk of mikið þroskaðra tómata. Nokkrar tegundir voru af blönduðu salati, ýmsar sósur og súrmeti, auk ananas og melónubita, sem nota mátti fyrir eftirrétt.

Smálúða dagsins var afar þurr, hugsanlega úr örbylgjuofni. Hún var borin fram með afar ólystugri eggjasósu, fremur mikið soðnu blómkáli og hvítum kartöflum. Þetta minnti á tilbúna sjónvarpsrétti í sumum útlöndum.

Að kvöldi var prófuð mjög þykk og fremur hveitileg, rjómalöguð sjávarréttasúpa, sem hafði að geyma rækjur, humar og krækling, borin fram með dökku ostaflautubrauði. Hún var frambærileg eins og fyrri súpan.

Villigæsakæfa var fremur bragðlítil, borin fram með ágætu eplamauki, vínberjum, kiwi, mandarínu og papriku. Grafsilungur var óeðlilega rauður á litinn, eins og hann hefði komizt í kynni við litarefni. Hann var þó góður á bragðið, borinn fram með vægri sinnepssósu, sem fékk á sig skán, svo og léttristuðu brauði.

Staðlað meðlæti
Staðlað meðlæti fylgdi aðalréttunum, jafnt fiski sem kjöti. Það fól í sér léttsoðna gulrótarstrengi, léttsoðið blómkál, rauða papriku og pönnusteiktar kartöflusneiðar, sem mér fannst tæpast fara vel við soðinn fisk.

Í svokölluðu stjörnugratíni var rauðspretta, blönduð rækju og humri, borin fram á heitri pönnu undir miklu magni af ostblandaðri og örlítið kekkjaðri hveitisósu. Þetta var fremur ólystugt. Gufusoðnar rauðspretturúllur voru hins vegar meyrar og góðar, allt öðruvísi en smálúðurúllurnar höfðu verið í hádeginu. með þeim var humar í skelinni og ágæt steinseljusósa.

Kjötréttirnir voru bezti þátturinn í framboði Hansens. Lambavöðvi var mildilega og ágætlega sinnepskryddaður, bragðmikill og góður, borinn fram með kiwi og rauðvínssósu. Enn betri var holdanautabuffsteik, afar meyr og ljúf, borin fram með góðum sveppum og mildri kryddsósu. Hún var með beztu steikum, sem ég hef smakkað um langt skeið.

Eini eftirrétturinn á fastaseðli staðarins er þjóðarréttur íslenzkra veitingahúsa, djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi. Hann var ekki prófaður. Kaffi var ágætt.

þriggja rétta máltíðar með hálfri flösku af víni á mann og kaffi er 1410 krónur. Það er í hærri kantinum, – í milliverðflokki, sem er milli hæsta flokks og miðjuflokks. Því sæti deilir Hansen með öðrum nýlegum veitingahúsum á borð við Þrjá Frakka og Alex.

Jónas Kristjánsson

Hádegismatseðill:
Sveppasúpa
330 Soðin smálúða með hollandaise-sósu
330 Steiktur fiskur Doria
550 Lambahryggur með rauðvínssósu
650 Grísasneiðar með appelsínusósu
240 Súpa og salatbar

Fastaseðill:
200 Rjómalöguð sjávarréttasúpa
180 Frönsk lauksúpa
330 Blandaðir sjávarréttir gratín
320 Grafinn silungur með víkingasósu
260 Villigæsapaté með eplasósu
320 Hörðuskel og skinka með grape-aldini
240 Eggjakaka með púrru og beikoni
380 Piparkrydduð steinbítssteik með beikoni í koníakssósu
390 Gufusoðnar rauðspretturúllur með humar-grænjurtasósu
590 Stjörnugratín Hansen, bezti fiskur hverju sinni
680 Sinnepskryddaður lambavöðvi með kiwi og rauðvínssósu
730 Nauta- og grísahryggsneið með vínberjum, appelsínusósu
810 Holdanautafillet með hrísgrjónum og ristuðum sveppum
295 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi

DV