Hansen

Veitingar

Hansen í Hafnarfirði er notaleg matstofa, þótt matreiðslan sé ekki upp á marga fiska, að minnsta kosti ekki upp á fiskrétt dagsins, sem stundum er ekki frekar fáanlegur en helmingurinn af eftirréttum matseðilsins.

Veitingasalurinn er í einu af elztu húsum bæjarins, við hlið húss Bjarna Sívertsens og sjóminjasafnsins. Bindingsverk er í veggjum með dökkbrúnum stoðum og bitum og hvítmáluðu á milli. Gamalt og traust parkett er á gólfi. Ramminn hentar vel rekstri af þessu tagi.

Bætt hefur verið við sívölum stoðum og bitum í stíl, sem hófst hér á landi í Halta hananum. Milli þessarar nýsmíði eru mikil og dimm tjöld, sem stúka salinn niður. Sams konar tjöld eru í borðdúkum, sem ýmist eru óhreinir eða undir gleri. Litur tjaldanna stingur dálítið í stúf við ljóst blómaflúr í vönduðum stólum.

Skenkur er í ljósari og sléttari viði en aðrar innréttingar, ungar sem gamlar. Að baki hans eru enn ljósari hillur. Þetta er tæpast smekklegt frekar en aðrar innréttingar, en truflar þó ekki hina notalegu stemmningu, sem vingjarnleg þjónusta staðarfólks treystir í sessi.

Aðaltromp Hansens er að spara gestum sínum leigubíla. Gestir eru sóttir og þeim er skilað heim á öllu höfuðborgarsvæðinu. Flutningurinn er innifalinn í verði á súpu dagsins, aðalrétti að eigin vali af matseðli og eftirrétti að hætti kokksins, samtals á 2.900 krónur á mann.

Matseðillinn er stuttur og óbreyttur frá ómunatíð. Súpur voru að mestu rjómi, bæði súpa dagsins og skeldýrasúpa. Fyrir utan rjóma hafði hin fyrri að geyma nokkrar sveppaflísar úr dós og hin síðari fremur góðar rækjur, hörpu og humar. Sætar brauðkollur minntu á snúða.

Léttreyktur sjófugl var góður og meyr, en nokkuð grár, borinn fram með títuberjahlaupi. Gratineruð öðuskel var grimmdarlega elduð, með dökkbrúnni ostskorpu, borin fram með eggjasósu, sem var út í hött í þessu samhengi.

Fremur aldrað jöklasalat var með öllum aðalréttum, sömuleiðis bökuð kartafla, jafnt með fiski og kjöti.

Lúða dagsins var mikið elduð og eftir því þurr, með agnarögn af karrísósu með rækjum og seigri hörpu.

Lamafillet, sagt léttsteikt á seðlinum, reyndist vera þungsteikt, borið fram með miklu af mildri kryddjurtasósu og pönnusteiktu grænmeti, fremur ómerkilegu.

Fiskur dagsins var ekki fáanlegur í einni heimsókninni, þótt ekki séu nema nokkur skref frá höfn til húss. Í staðinn var mælt með grillaðri sjávarréttafantasíu matseðilsins. Rækjur voru í lagi, humar smár og mikið grillaður. Gratineruð harpa og rækja í karrísósu í öðuskel var ekki sérlega lystugt. Lax var sérstaklega þurr af völdum ofgrillunar. Lúða var sæmileg, en steinbítur háður sama þjösnaskap í eldun. Þetta var eftirminnileg fantasía, en verður áreiðanlega ekki endurpöntuð.

Ostakaka og eplakaka voru ekki til, þótt fáir væru gest ir og kvöldið ungt. Í eldhúsinu virtust menn ekki einu sinni nenna að standa við stuttan og óumbreytanlegan matseðil, hafa sennilega misst trú á framtíðina.

Súkkulaðikaka með þeyttum Amarettorjóma var þétt og góð, borin fram með jarðarberjum og kiwi. Í eitt skiptið var kaffi sæmilegt, í annað skipti með sápubragði. Mig grunar, að Hansen sé orðinn þreyttur í eldhúsinu.

Jónas Kristjánsson

DV