Hard Rock

Veitingar

Réttnefnt rokkminjasafn

Hard Rock Cafe í Kringlunni er merkilegur veitingastaður, sem er að ýmsu leyti til fyrirmyndar. Eini umtalsverði galli hans er að heita ensku nafni. Til er ágætt orð, sem lýsir staðnum vel og gæti verið heiti hans: Rokkminjasafnið. Mun ég sjálfur nota það hér að neðan.

Á Íslandi er ungt fólk að jafnaði kurteisara en miðaldra fólk og gamalt. Það stafar meðfram af, að heimsmennska hefur sótt á, en einangrunarmennska, stundum kennd við nes eða afdali, hefur látið undan síga. Þessi gamla kenning mín fær góðan stuðning af Rokkminjasafninu.

Þar ræður ríkjum ungt fólk, glaðlegt og hjálpsamt. Mættu sumir skólagengnir og smóking-klæddir þjónar læra af þessu kæruleysislega klædda, en áhugasama þjónustuliði, sem á töluverðan þátt í gengi staðarins. Eins og á fínustu stöðum stjórnar móttökustjóri þjónustunni og fylgir sjálfur gestum til borðs.

Mér skilst, að Rokkminjasafnið sé komið til sögunnar, af því að Tommi í Tommaborgurum notaði leiðsögubókina mína um London og kom í Hard Rock Cafe, sem þar er að góðu getið. Hann hafi orðið svo hrifinn af staðnum, að hann hafi æ síðan eða í fjögur ár verið að undirbúa opnun í Reykjavík á hliðstæðum veitingastað, sem nú er orðinn að veruleika. Þetta segir Tommi að minnsta kosti sjálfur.

Hóflegur hávaði

Að einu leyti er Rokkminjasafnið öðruvísi en systurstaðirnir í London og New York, hinum heimsborgunum tveimur. Veitingastofan í Kringlunni er ekki eins hávaðasöm. Hljómlistin er svo lágvær, að fólk, sem hefur ekki brennandi áhuga á rokki, getur talað saman áreynslulaust. Mér finnst þetta til bóta, enda eindreginn stuðningsmaður hins nýja félags hatursmanna hávaða.

Samt veit ég, að í þessu felst aðlögun að hóflegri stærð rokkmarkaðarins hér á landi og að búsetu veitingastaðarins í verzlunarmiðstöð almennings. Í London er almenningur fældur af ásettu ráði með hávaða frá Hard Rock Cafe, en hér þarf Rokkminjasafnið á almenningi að halda. Hér eru ekki biðraðir út á götu eins og í London.

Mikið af alúð, vinnu og fé hefur verið lagt í útlit Rokkminjasafnsins. Fólk kann að vera ósátt við það, sem það sér, en getur þó tæpast neitað, að innra samræmi er í stílnum, bæði í heildardráttum staðarins og einnig í öllu kraðakinu, sem fyllir rammann.

Hinar stóru útlínur eru óbeint ættaðar frá veitingastofum kvikmynda villta vestursins. Hluti borðanna er í potti í miðjunni og annar hluti á svölum í kring. Úr pottinum liggur voldugur og vandaður sveigstigi upp á aðra hæð, þar sem einnig eru svalir. Þar uppi er innlenda rokkminjasafnið, en hið erlenda niðri.

Allir veggir veitingahússins eru þaktir rokkminjum á borð við hljóðfæri og plaköt. Hvert þeirra fær sína sérstöku lýsingu. Ofan á skilrúmum og svalahandriðum er grindverk úr messing. Í pottinum eru góðir armstólar með sveigðu trébaki við rúðudúkuð borð, en á svölunum er mest setið í trébekkjum við nakin borð úr dökkum viði. Á borðum er franskt alvörusinnep, ekki pylsusinnep.

Ingólfur gítaristi Arnarson

Annað einkennistákn staðarins er styttan af Ingólfi Arnarsyni, eftirlíking Arnarhólsstyttunnar, en með þeirri viðbót, að landnámsmaðurinn hefur slengt rokkgítar á bakið. Hitt táknið eru nokkrir afturendar bandarískra uggabíla frá miðjum sjötta áratugnum. Einn endinn hangir úti fyrir dyrum og sennilega tveir inni í sal. Í lofti hanga svo leikfangabílar hátt yfir salnum. Á einn veginn er opið inn í eldhúsið, þar sem derhúfukokkar hamast við störf sín.

Matseðillinn er í stíl systurstaðanna, afar bandarískur. Hamborgarar og salöt skipa þar virðingarsess, þótt Rokkminjasafnið sé ekki skyndibitastaður að neinu leyti. Það er fullbúið veitingahús með alvörukokkum, vínveitingum og fullri þjónustu til borðs. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í verðlagi staðarins, þar með töldu verði á hamborgurum.

Viðarkol og hikkorí

Ameríkanisminn gegnsýrir seðilinn, allt frá maísstönglum í forrétt til hinna hitaeiningaríku eftirrétta. Lögð er áherzla á viðarkolasteikingar, hikkorí-reykingar og glóðarsteikingar, eplakökur, djöflatertur og himnaríkis-ísa, sem allt er mjög bandarískt og einfalt í matreiðslu.

Segja má, að þetta sé eldhús, þar sem ekki er stefnt að því að magna bragð hráefnisins, heldur ákveðinna kryddtegunda eða annarra bragðgefandi efna, sem fylgja matreiðslunni. Og ennfremur má segja, að eldhúsið miði við íhaldssemi unga fólksins, sem margt hvert sættir sig ekki við breytilegt bragð, heldur vill alltaf sama bragðið, vill til dæmis ketchup-bragð að öllum mat. Hér eru það viðarkola- og hikkoríkeimur, sem ráða ferðinni.

Brokkálssúpa dagsins reyndist vera góð hveitisúpa með miklu brokkáli, afar heit og í för með ómerkilegum hvítahveitis-brauðsneiðum. Viðarkola-glóðarsteiktur pipar-steinbítur var góður, ekki óhóflega eldaður, en dálítið bældur af fljótandi sósu, sætri og bragðsterkri. Með honum fylgdi hið staðlaða meðlæti hússins, bökuð kartafla eða franskar kartöflur, ísbergshnaus með ídýfu að eigin vali. Í tilviki steinbítsins var mælt með kaldri sinneps-piparsósu, sem reyndist sæmilega.

Hamborgari hússins var mjög góður sem slíkur, hæfilega lítið steiktur og kostaði með frönskum kartöflum heilar 465 krónur. Innanlærisvöðvastykki úr nauti var réttur dagsins, hæfilega lítið viðarkola-glóðarsteikt og bragðgott, en ekki sérstaklega meyrt. Sósan var yndislega hveitilaus og rækilega krydduð. Glóðarsteikt mínútusteik var enn síður meyr, en samt nokkuð góð, borin fram með skemmtilegri gráðostsósu. Langbezt var frábært lambakjöt, viðarkola-glóðarsteikt, bleikt og meyrt, með góðu jafnvægi kjötbragðsins og bragðsins úr matreiðsluaðferðinni.

Stríðstertur misgóðar

Eplakakan var kölluð heimatilbúin, en hún bar þess ekki merki, nokkuð þykk kaka og nauðaómerkileg. Djöflatertan var betri, gríðarstórt fjall, óvenjulega þurr, en þeyttur rjómahaugur gaf henni mýkt. Himneska ístertan hvíldi á mjög þunglamalegum og vondum marens og fólst í fjalli tvenns konar ísa, sem voru húðaðir þeyttum rjóma og því, er mér sýndust sem betur fer vera möndluflögur, en ekki kókosmjöl, svo sem stóð í matseðli. Eftirréttirnir dúxuðu frekar í magni en gæðum, enda sagði hin brosmilda þjónustustúlka, þegar ég gafst upp í miðri stríðstertu: “Enginn getur klárað þetta”. Það var nokkuð hughreystandi.

Sem dæmi um amerísku staðarins má nefna, að gert er ráð fyrir þeim möguleika, að gestir vilji drekka kaffið sitt með matnum og ekki á eftir honum. Það er sá siður að vestan, sem sífellt kemur mér á óvart. Vín fæst í Rokkminjasafninu, flest ómerkilegt annað en Chateau Fontareche og Marqués de Riscal.

Alls ekki dýr staður

Ég get fel hugsað mér að koma aftur við í Rokkminjasafninu og þá eingöngu til að endurnýja kynnin af viðarkola-glóðarsteikingunni, sem einkennir flesta beztu rétti staðarins.

Í hádeginu er súpa og samloka selt á 275 krónur, súpa og fiskur á 490 krónur og stundum súpa og kjöt á 650 krónur. Á kvöldin er miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi 1.200 krónur. Það er frekar ódýrt í samanburði við önnur alvöru-veitingahús í landinu.

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
120 Súpa dagsins
130 Kornstöngull með smjöri
1190 Hard Rock nautalund glóðarsteikt
890 Viðarkolasteikt lambagrillsteik
675 Hikkorí-reyktur kjúklingur
790 Svínarif Tennessee-reykt
490 Grísasamloka hikkorí-reykt
990 Mínútusteik glóðarsteikt
780 Viðarkola-glóðarsteiktur lax
625 Viðarkola-glóðarsteiktur pipar-steinbítur
240 Heimatilbúin eplakaka með þeyttum rjóma
240 Djöflaterta með þeyttum rjóma eða ís
290 Spari-ís “Hot Fudge Sundae”
375 Banana-split með þremur ískúlum
375 Himnesk Hard Rock ísterta á marens

DV