Hard Rock

Veitingar

Hard Rock Café hefur sérstöðu. Staðurinn er engum líkur hér í bæ, hefur sitt eigið stef, sem gengur upp, því að oftast er mikið um að vera. Maturinn er góður, móttökur alúðlegar og broshýr þjónusta í bezta lagi. Samt er staðurinn fremur ódýr, að frátöldum hamborgurum. Meðalverð aðalrétta er 1390 krónur, þiggja rétta 2275 krónur.

Þessi víði og hái salur í stíl glæsilegrar kúrekakrár í tamda vestrinu, en ekki villta vestrinu, er þakinn rokkminjum og poppminjum, hljóðfærum, gullplötum og plakötum. Skipulegt kraðakið er listaverk út af fyrir sig.

Í miðjum sal trónir eftirlíking af styttu Ingólfs Arnarsonar með gítar á bakinu. Tónarnir í andrúmsloftinu eru ekki eins stríðir og ætla mætti af nafni staðarins. Eiginlega ætti hann að heita Soft Rock Café eða Disco Café.

Matreiðslan er bandarísk, með áherzlu á viðarkolagrillun og á þá Texas-matreiðslu, sem er undir áhrifum frá Mexikó og kölluð er Tex-Mex þar vestra. Þetta er góð blanda, sem hæfir vel kúrekaímynd staðarins.

Chips og salsa er nafn á forrétti, sem fól í sér stökkar tortilla-flögur og fremur milda, mexíkóska tómatdýfu. Öflugri forréttur var Super nachos, tortilla-flögur með margs konar sósum, ostasósu, chilisósu, salsasósu, avocadosósu, sýrðum rjóma, svo og hakki, góður matur.

Fajitos voru kryddlegnir nautakjötsstrimlar, sem komu snarkandi á pönnu með ýmsu grænmeti, svo sem lauk og chili-baunum og nokkrum sósum. Til hliðar voru volgar og mjúkar tortilla-flögur í einangrunarboxi. Gestir raða kjöti, grænmeti og sósum á flögurnar, brjóta þær eins og pönnukökur og hakka þær síðan í sig. Soft tacos var önnur og einfaldari útgáfa af mjúkum tortillaflögum.

Í hádegi var nýlega boðin fremur sterk og nokkuð góð, mjúk en ekki seig, pepperoni-pitsa dagsins með lauk, gráðosti og grænum pipar á 695 krónur, svo og hæfilega grillaðar og ekki fituskornar lambakótilettur með hrásalati, frönskum kartöflum og rauðvínssósu á 895 krónur. Þessum réttum fylgdi óvenju góð blaðlaukssúpa með litlu hveiti og miklum rjóma. Í annað sinn var brokkálssúpa dagsins í sama gæðaflokki, borin fram með góðu brauði.

Djúpsteiktir kjúklingavængir í sterkri sósu voru nokkuð góðir, ekki áberandi mikið steiktir. Sterkt kryddlegnar kjúklingabringur voru enn betri, bornar fram með hrásalati, krydduðum hrísgrjónum og bakaðri kartöflu.

Hæfilega sinnepskryddaðar grísasneiðar komu fram með tvenns konar kartöflum, bakaðri og frönskum, svo og mildri ostasósu og hrásalati. Franskar eru úr raunverulegum kartöflum. Viðarkolasteiktur steinbítur var lítillega ofeldaður og töluvert mikið kryddaður.

Eftirréttir staðarins eru máltíðir út af fyrir sig. Hot fudge er nafn á sætum og góðum, þunnum og þéttum súkkulaðikökubotni með vanilluís, súkkulaðisósu og þeyttum rjóma. Mjólkurhristingur staðarins var svo þykkur, að hann náðist tæpast gegnum rörið, ekki eftir minnilegur á bragðið. Heimatilbúin eplakaka með þeyttum rjóma var lágpunktur staðarins, afar þykk og virtist vera tilbúinn réttur úr pakka. Hápunkturinn var hins vegar risastór sneið af djöflatertu með þeyttum rjóma.

Hard Rock Café er einn af tiltölulega fáum matstöðum borgarinnar, sem mig langar til að heimsækja aftur.

Jónas Kristjánsson

DV