Frá línuvegi á Hreppaafréttum að Svínárnesi á Hreppaafréttum.
Farið um slóðir, sem voru byggðar að fornu samkvæmt fornleifagreftri. Þá var byggð við Búðará og Stangará og þaðan var stutt upp að Kjalvegi við Hólmavað. Fundizt hafa bæjarstæði nokkurra fornbæja á þessari leið, Lauga, Búðarárbakka, Rofshóla, Stangarness, Mörþúfu og Þórarinsstaða. Flestir eru þeir í um 260 metra hæð nálægt Búðará og Stangará. Í Jarðabókinni segir, að tólf bæir hafi verið á þessum slóðum að fornu. Hér fór fólk, sem þurfti að fara milli Norðurlands og sveita austan Hvítár. Þá fóru menn upp Tungufellsdal og um Svínárnes að vaði á Jökulfalli við núverandi brú á Hvítá norðan Bláfells. Fóru vað á Jökulkvísl í stað þess að fara vað á Hvítá. Á Harðavelli var valllendi fram á 19. öld, sem hefur síðan blásið upp. Enn eru þar háar valllendistorfur, sem þreyja þorrann.
Byrjum í 300 metra hæð á vegamótum afréttarvegar Hrunamanna úr Tungufellsdal og línuvegar yfir Hreppaafréttir. Förum frá vegamótunum norðvestur af jeppaveginum niður að brekkum Hvítár, þar sem gamli Kjalvegurinn liggur upp úr Hreppum. Þaðan upp með Hvítá að fornbýlinu Búðarárbakka og síðan stuttan spöl upp með Búðará, þangað sem hún sveigir úr austri. Þar förum við yfir ána og áfram norður að Stangará, þar sem voru fornbýlin Rofshólar og Þórarinsstaðir. Förum áfram norðvestur að Harðavelli austan við Hvítá og eftir völlunum að Sandá og upp með henni að fjallaskála í Svínárnesi í 390 metra hæð.
20,8 km
Árnessýsla
Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Kjalvegur, Tungufellsdalur, Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins