Harðstjórn spakmæla

Greinar

Meirihluti Íslendinga leggur ekki sjálfstætt mat á ýmis hugtök, sem eru kjarninn í stjórnmálastefnu okkar og helzta forsenda þess, hve erfiðlega okkur gengur að ná árangri sem þjóð. Í staðinn tyggja menn hver eftir öðrum ýmis spakmæli eða klisjur, sem spara hugsun.

Íslendingar telja “þjóðhagslega” hagkvæmt að “fullvinna” “hráefni” sjávarútvegsins, hafa vexti “sanngjarna”, vera “sjálfum okkur nógir” í búvöru og framleiða “mat handa hungruðum heimi” og að ferðamenn fáist til að koma og skoða “hreint og óspillt land”.

Íslendingar telja, að “allt landið skuli vera byggt” og að stöðvuð skuli “elfur fjármagnsins suður” til Reykjavíkursvæðisins. Íslendingar telja eðlilegt, að fólk og fyrirtæki fái “fyrirgreiðslu” hins opinbera og að ráðherrar setji “reglugerðir” til að bæta hag sérhagsmunahópa.

Til þess að haga málum sem greinir frá hér að framan, telja Íslendingar heppilegt, að allt vald sé í höndum “ráðherrans”. Valdamenn eru því vinsælli, sem þeir setja fleiri reglugerðir, er miða að framgangi ofangreindra spakmæla og annarra af svipuðum toga.

Ein dýrasta klisja Íslendinga er, að fiskur sé hráefni, en ekki matur. Fólk, sem vill sjálft ekkert nema nýja ýsu í fiskbúðinni, telur eigi að síður, að verðgildi hennar í útflutningi verði því meira, sem meira er hamast á henni í frystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum.

Þetta gekk svo langt, að ráðherrann, sem er vinsælastur og reglugerðaglaðastur allra valdamanna, bannaði útflutning á ferskum fiskflökum, sem keypt voru á 300 krónur kílóið í útlöndum. Hann gerði það á þeim forsendum, að fersku flökin væru líklega skemmd!

Engin leið er til að fá Íslendinga til að skilja, að verðgildi fyrirhafnar af ýmsu tagi mælist bezt á því, hversu mikið verð umheimurinn fæst til að greiða fyrir hana á frjálsum markaði. Enda eru lögmál markaðarins meirihluta þjóðarinnar að mestu leyti lokuð bók.

Þess vegna hafa Íslendingar ákveðið, að með afli ríkisins skuli allt landið vera byggt og helzt í sömu hlutföllum og voru fyrr á öldinni. Menn eru andvígir “röskun” búsetuflutninga, þótt hún hafi verið stærsta gróðafyrirtæki þjóðarinnar fyrstu sex áratugi aldarinnar.

Mjög fáum dettur í hug, að rétt sé, að vextir stjórnist af framboði og eftirspurn. Miklum og vaxandi fjölda atvinnurekenda finnst, að “fjármagnskostnaður” fyrirtækja þeirra sé eitthvert óviðkomandi náttúruafl, sem sé eins og hver önnur utanaðkomandi óheppni.

Ein kyndugasta klisjan, sem þjóðin gengur með á heilanum, er, að Ísland sé hreint og fagurt land. Forsætisráðherra er sífellt að skipa nýjar nefndir í því máli, þótt endalaust hafi verið rakin dæmi um, að Íslendingar eru óvenju miklir sóðar, þrátt fyrir mikið landrými.

Hér rýkur volgt skolpið frá sjónum yfir allan bæ. Hér eru opnir sorphaugar leikvöllur fugla, sem bera gerla og veirur út um allt. Hér er neyzluvatn tekið af yfirborði jarðar, fullt af gerlum af ýmsu tagi. Hér er landeyðing vegna landbúnaðar eins og hún gerist mest í Afríku.

Dýrustu klisjur Íslendinga eru þær, sem notaðar eru til að stjórna landbúnaði. Það kostar okkur 15 milljarða á ári að halda “jafnvægi í byggð” dreifbýlis og halda uppi sjálfsþurftarbúskap í nútíma, sem Vesturlandabúum er almennt kunnugt um, að byggist á sérhæfingu.

Ógöngur Íslendinga eru ekki verk fárra stjórnmálamanna. Þær eru afleiðingar þess, að þjóðin hefur látið spakmæli og klisjur spara sér að hugsa málin rökrétt.

Jónas Kristjánsson

DV