Harðstjórum fækkar

Greinar

Valdamissir tveggja harðstjóra var bezta jólagjöfin til mannkyns að þessu sinni. Framtíðin blasir við Rúmenum og Panamamönnum á þessum jólum, þótt ekki sé enn tryggt, að lýðræði hafi fest rætur í ríkjum þeirra. Alténd geta þeir farið að rækta með sér lýðræði.

Manuel Antonio Noriega húkir nú í sendiherrabústað Páfastóls í Panama. Hann var minni háttar harðstjóri, sem gerði meira af því að láta berja fólk en drepa það. Harðstjórn hans var skipulagslítil og tilviljanakennd og snerist mest um að vernda viðskiptahagsmuni hans.

Noriega var upphaflega búinn til af leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem síðan missti stjórn á honum eins og Drakúla missti stjórn á Frankenstein í bíómyndinni. Noriega er skólabókardæmi um heimsku og vanþekkingu, sem hefur löngum ríkt í leyniþjónustunni.

Ráðamenn í Evrópu hafa sumir hverjir gagnrýnt með hangandi hendi innrás Bandaríkjanna í Panama. En undir niðri eru allir fegnir, að Bandaríkin skuli nú hafa losað Panama við uppvakninginn, sem þau bjuggu til á sínum tíma, áður en eiturlyfjastríð komust í tízku.

Nicolai Ceausescu var miklu verri harðstjóri, sem Rúmenar verða seint gagnrýndir fyrir að taka af lífi. Hans harðstjórn var þrautskipulögð og hvíldi á herðum morðvarga, sem hafa líf tugþúsunda á samvizkunni í uppþotunum, er leiddu til falls harðstjórans.

Ceausescu var ekki einn um að siga öryggissveitum á almenning. Það gerði líka Honnecker í Austur-Þýzkalandi. Munurinn var einungis sá, að nokkrir menn í kringum Honnecker gátu dregið skipunina til baka, en enginn í Rúmeníu gat tekið þar að sér hliðstætt hlutverk.

Athyglisvert er, að verstu harðstjórar síðustu áratuga hafa verið kommúnistar, lærisveinar Lenins. Svo er um Mengistu Haile Mariam í Eþíópíu. Hann hefur ótrauður keyrt áfram kerfisbreytingar, sem hafa hvað eftir annað leitt hrikalega hungursneyð yfir þjóðina.

Versti harðsjóri síðustu áratuga var Pol Pot, sem Vietnamar hröktu frá völdum í Kambódsíu. Hann lét á skömmum valdaferli slátra milljónum manna á skipulegan hátt, meðal annars til að útrýma læsi í landinu. Það átti að vera grundvöllur hins nýja þjóðfélags.

Nú eru Vietnamar farnir og Pol Pot er á leiðinni til valda á nýjan leik. Ekki kemur á óvart, að hann er studdur afblóði drifnum ráðamönnum í Kína. Verra er, að hann er einnig studdur óbeint af helzta bandamanni Kína á Vesturlöndum, það er að segja Bandaríkjunum.

Eitt nauðsynlegasta verkefni umheimsins um þessar mundir er að koma í veg fyrir, að Kínverjum takist ætlun sín í Kambódsíu. Vitað er, að Pol Pot hefur ekkert lært og engu gleymt. Ef hann fær aðild að samstjórn, verður hann fljótt búinn að ná öllum völdum.

Í þessu samhengi tekur tæpast að nefna Augusto Pinochet í Chile, sem hefur reynzt svo slappur harðstjóri, að hann er smám saman að gefa frá sér völd. Þar hefur lýðræðislega kjörin stjórn komizt friðsamlega til valda og fyrirsjáanleg er lýðræðisþróun í landinu.

Árið 1989 hefur verið gott ár fyrir mannkyn og það virðist ætla að enda vel. Séríslenzka kreppan, sem ríkisstjórnin bjó til og magnar enn, skiptir sáralitlu þegar litið er til gleðitíðindanna að utan. Víða um heim og einkum í Austur-Evrópu hefur snögglega birt rækilega.

Við skulum svo ekki gleyma, að Rúmenar þurftu að færa miklar fórnir til að losna við sinn harðstjóra og hafa enn ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið.

Jónas Kristjánsson

DV